145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Eins og fram hefur komið er margt kúnstugt við það hvernig við högum tilveru okkar hér um kvöld og nætur og meðal annars þessi sérkennilega staða að við berum þráfaldlega upp sömu spurningarnar og fáum ekki við þeim svör. Það er líka nánast vonlaust að útskýra það fyrir heimilisfólki á venjulegum heimilum á aðventu hvað þetta snúist eiginlega um, að kvöld eftir kvöld og nótt eftir nótt séum við að vinna á löggjafarsamkomunni og vitum ekki hvenær vinnudeginum lýkur. Ég bý nú svo vel að hafa unglinga á mínu heimili sem segja að þetta séu leifar frá þeim tíma þegar það voru bara karlar á Alþingi sem gátu gengið að skúruðum gólfum og skreyttu jólatré einhvern tíma á Þorláksmessu. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um það (Forseti hringir.) að við sitjum uppi með alls kyns steingervinga og risaeðlur sem er algerlega kominn tími til að skúra héðan út.