151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér einfalt mál, ekki mjög viðamikið, það eru fjórar greinar með gildistökuákvæðinu. Hér hefur hins vegar orðið þó nokkur umræða af hálfu hv. þingmanna Miðflokksins sem virðast vera á móti málinu og eru á móti því af ástæðum sem standast enga skoðun, ekki neina. Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir þann málflutning sem hefur verið framinn hér í dag af hv. þingmönnum Miðflokksins og ætla að byrja á kostnaði. Eins og hæstv. félags- og barnamálaráðherra fór yfir margsinnis áðan þá er viðbúinn kostnaður af lögfestingu þessa frumvarps 23,7 milljónir. Ég hygg að þokkalega stór hluti áhorfenda skuldi meira í íbúðarhúsnæði sínu en það. Þetta er ekki mikill peningur fyrir ríkissjóð. En það sem hv. þingmenn Miðflokksins gera þá er að þeir fara að tala um eitthvað allt annað en þetta frumvarp. Þeir vilja meina að það feli í sér kostnað eða fleiri umsækjendur um hæli og kostnað samhliða því, eitthvað sem kemur þessu máli efnislega ekkert við.

Þetta mál er nefnilega hægt að reikna út og hefur verið reiknað út hvað muni kosta mikið út frá efnisatriðum frumvarpsins sjálfs, sem er ekki langt. 1. gr. fellir úr gildi 2. mgr. 3. gr. laganna sem um ræðir, sem eru lög um málefni innflytjenda, svo koma tvær greinar og síðan gildistökuákvæðið. Þessar tvær greinar fjalla um hlutverk Fjölmenningarseturs. Í stuttu máli snýst þetta um að bæta við starfsfólki til að samræma hluti sem þegar er verið að gera. Ég ætla að undirstrika þetta: Hluti sem þegar er verið að gera, sem fjármagn fer nú þegar til og eru ekki afleiðing þessa frumvarps. Og það mun ekki breytast jafnvel ef þetta frumvarp nær ekki fram að ganga. Það eina sem breytist ef frumvarpið nær ekki fram að ganga er jú að ríkissjóður getur sparað hátt í 23,7 milljónir og hitt er að það verður flóknara fyrir Fjölmenningarsetur að sinna hlutverki sínu. Það er allt og sumt. Annað og meira er ekki í húfi.

En hv. þingmenn Miðflokksins koma hingað upp og nýta hvert tækifæri sem þeir geta til þess að tala um útlendingamál. Mér finnst það ekkert í lagi hvernig þeir gera það. Ég ætla að gagnrýna það hér. Ég veit að þeir verða mjög sárir yfir því og finnst það ekki málefnalegt þegar ég bendi þeim á hvað sé að orðræðu þeirra í útlendingamálum, berjast um á hæl og hnakka við að hneykslast sem mest á því að ég sé að ýja að því að það séu annarlegar hvatir að baki. Ég ætla bara segja beint út að það eru annarlegar hvatir að baki. Það er deginum ljósara að hv. þingmenn Miðflokksins tala um útlendingamál á þann hátt sem þeir gera til þess að veiða atkvæði, til þess að fá atkvæði frá fólki sem ýmist þekkir ekki málaflokkinn, sem er langflest fólk reyndar, eða er hrætt við útlendinga eða mikla fjölgun þeirra eða eitthvað því um líkt. Það er nefnilega áberandi stef í málflutningnum að það sé allt í lagi að hafa útlendinga svo lengi sem þeir eru annars staðar en hérna. Það er allt í lagi að hjálpa útlendingum, bara ekki hérna. Þeir mega aðlagast samfélaginu, bara ekki hérna.

Virðulegur forseti. Slíkur málflutningur er bara vondur. Ég minnist þess að í gamla daga, eða það sem er í minni sál í gamla daga, á tíunda áratug síðustu aldar, þá var mikil umræða um samkynhneigð og sér í lagi samkynhneigða karlmenn. Þá voru margir sem ég þekkti á þeim tíma sem sögðu að þeir hefðu ekkert á móti hommum, bara svo lengi sem þeir væru ekki nálægt þeim, svo lengi sem þeir væru annars staðar. Það, virðulegi forseti, er ekkert mikið skárra. Þegar við höfnum fólki þá erum við að hafna fólki. Það er ekkert mál fyrir fólk með hvað verstu skoðanirnar í útlendingamálum og málefnum minnihlutahópa almennt. Fólk sem er með verstu skoðanir í þeim málaflokkum samkvæmt öllum þingmönnum hér inni, þori ég að fullyrða, er þó alveg til í það að minnihlutahópurinn eða viðkvæmi hópurinn, hver sem hann er, sé annars staðar. Stækustu gyðingahöturum finnst allt í lagi að gyðingar séu annars staðar. Þannig að ég gef ekkert fyrir þann málflutning sem við heyrum hérna sem er þannig að útlendingar megi alveg vera til, þeir megi alveg fá þjónustu, þeir megi alveg lifa góðu lífi, þeir megi alveg leita sér betra lífs, bara ekki hérna, ekki nálægt okkur. Ég gef ekkert fyrir þennan málflutning. Hann er algjör fyrirsláttur, málamyndamálflutningur. Móðgist hver sem vill við þau orð og verði þeim að góðu.

Til þess að reyna að færa kannski sterkari rök fyrir þessari afstöðu minni þá vil ég benda á þrennt. Það fyrsta er að útlendingalögin sem voru sett 2016 voru ekki fullkomin. Það er enginn, held ég, í þessum þingsal sem telur þau vera nákvæmlega eftir eigin höfði. Þar er mikið um málamiðlanir, þetta er stór og mikill lagabálkur með mörgum flækjum og mörgum matsatriðum og vafaatriðum sem er erfitt að skoða til hlítar og reyna að ná heilu þingi saman um. Það tókst með herkjum, það var erfitt. Það er fullt í þeim lögum sem er meingallað að mínu mati og sennilega flestra hér inni, þótt við séum ekki sammála um hverjir gallarnir séu. Þegar þau lög voru til umræðu var uppi í samfélaginu sú orðræða að við myndum missa alla stjórn á landamærunum og þau yrðu galopin, — reyndar var sagt að þau væru galopin þar áður, en það er önnur saga — þetta væri eitthvert hippafrumvarp sem myndi galopna landamærin og hér myndi allt drukkna í útlendingum. Þetta var orðræðan. Reyndar ekki hjá Miðflokknum, hann var ekki til á þessum tíma, en það var hins vegar til flokkur sem hét og heitir kannski enn Íslenska þjóðfylkingin sem ég fór hérna, sællar minningar, út og ætlaði að spjalla við um efnisatriði frumvarpsins. Tókst ekki mjög vel. Lögin voru samþykkt og einhvern veginn lifir sú saga enn þá í þessum kreðsum að við séum með galopin landamærin. En samt má ekki opna þau. Samt er svo mikilvægt að loka fólk úti sem við erum að loka úti núna þótt við séum með galopin landamærin. Mótsögnin er alger, virðulegur forseti, og yfirþyrmandi. Hv. þingmenn Miðflokksins hunsa hana viljandi. Það er margbúið að leiðrétta þetta. Þeir halda áfram að segja sömu röngu hlutina vitandi að þeir eru rangir og það er til ljótt orð í íslenskri tungu til að lýsa þeirri hegðun, virðulegi forseti.

Í öðru lagi gerist það síðan að Sameinuðu þjóðirnar, aldrei þessu vant, ætla að fara að gera eitthvað rétt eins og þeim er reyndar tamt að gera stundum. Stundum tekst eitthvað hjá Sameinuðu þjóðunum sem er náttúrlega stórkostlega stór og erfið stofnun. Það er eitt að smala fulltrúum gjörvallar dýrategundarinnar inn í sama herbergi og annað að fá þá til að vera sammála um nokkurn hlut. En 160 lönd tóku undir það sem kallað er Marrakesh-samþykktin. Sú samþykkt snerist um að koma einhverri röð og reglu, skýrleika og fyrirsjáanleika, skipulagi á fólksflutninga í heiminum vegna þess að þá eins og nú er mikið um fólksflutninga og mikið af þeim eru óreglulegir. Þeir fara ekki eftir skýru skipulagi, þvert á móti, stundum er það lífshættuleg för yfir t.d. Miðjarðarhafið á lélegum bát þar sem móttökuríki vill ekki taka við fólki og vill senda það til baka. Það er slæmt að fólk sé í þeim aðstæðum og þess vegna var hugmyndin sú að reyna að hafa eitthvert skipulag á þessu og reyna að koma alþjóðlegu samstarfi í betra horf til að taka betur á þessum málaflokki. Auðvitað komu aftur upp sömu raddirnar úr sömu áttinni um að nú ætluðum við sko að galopna landamærin og missa öll tök á löggjöf okkar og hér myndu streyma inn útlendingar í massavís og hvaðeina. Auðvitað var þetta rangt og er rangt en það voru þingmenn Miðflokksins sem stóðu hér og höfðu áhyggjur af þessu máli. Og höfðu þær áfram þegar var búið að útskýra fyrir þeim hvernig það virkaði, þegar búið var að lesa það og hvaðeina. Það er áberandi að það eru áttirnar Miðflokkurinn og Útvarp Saga sem virðast einhvern veginn ekki geta talað um þennan málaflokk öðruvísi en að misskilja borðleggjandi staðreyndir eins og þær sem liggja í þessu frumvarpi.

Þá kem ég einmitt að þriðja atriðinu sem er frumvarpið. Hér koma hv. þingmenn Miðflokksins og eru á móti þessu frumvarpi, sem er stjarnfræðilega skrýtið miðað við efni þess. Hér er frumvarp sem kostar 23,7 milljónir eins og kemur fram á bls. 5. Ég vænti þess að hv. þingmenn Miðflokksins viti það þar sem þeir hafa lesið frumvarpið, heyrist mér á ræðum þeirra. Þetta snýr að því að gera þjónustu ákveðinnar stofnunar skilvirkari. Ógurlegra er málið ekki. Þetta er markmið sem allir þingmenn eru sammála um, að mér vitandi, að það eigi að auðvelda þeim sem hafa hér vernd til að aðlagast íslensku samfélagi, fyrir þessa einstaklinga sjálfa og íslenskt samfélag. Það er svo fyndið, eða merkilegt öllu heldur, að þegar kemur að samþykkt um reglulega för farenda þá skiptir í raun og veru engu máli hvort manni finnist að útlendingastefnan ætti að vera frjálslyndari eða íhaldssamari eða frjálslyndari eða ófrjálslyndari. Við hljótum að vera sammála um að við viljum hafa gott skipulag á hlutunum. En það var ekki þá, af þeirri einu ástæðu að því er virðist að málið fjallaði um útlendinga og þá þurfti að vera á móti því. Móðgist hver sem vill við þessi orð og verði þeim að því.

Hér er síðan mál þar sem við erum öll sammála um, hélt ég, að við viljum hjálpa fólki sem kemur hingað, af hvaða ástæðu sem það er, til að aðlagast, ekki bara fyrir þá einstaklinga heldur líka fyrir íslenskt samfélag. Að fólkið eigi auðveldara með að finna sér vinnu við hæfi, að læra íslenska tungu, að skilja menninguna og stjórnkerfi okkar og hvert eigi að leita í hinum og þessum kringumstæðum. Allt þetta er misjafnt milli menningarheima og þjóðríkja og auðvitað viljum við aðstoða fólk við að fóta sig á þennan hátt, af nákvæmlega sömu ástæðu og við viljum að börn gangi í grunnskóla, virðulegi forseti. En ekki koma hv. þingmenn Miðflokksins hingað og segja: Við þurfum að skera niður í grunnskólakennslu og hætta að kenna börnum að lesa af því að það er svo mikil sóun á skattfé eða það er hægt að nýta það fé betur.

Virðulegur forseti. Tilgangurinn með þessu máli er að hjálpa fólki að vera hluti af íslensku samfélagi. Það er mótsögn fólgin í því að hafa áhyggjur af því að hingað komi fólk og taki ekki þátt í íslensku samfélagi og að vera á móti þessu frumvarpi. Það er mótsögn. Hún er stæk og hún er yfirþyrmandi og tilgangurinn er algerlega ljós: Að reyna að vinna atkvæði fólks sem er hrætt við útlendinga og/eða skilur ekki málaflokkinn. Reyndar vil ég fara varlega í að álasa fólki fyrir að skilja ekki málaflokkinn, hann er stór og flókinn og hann er mjög breytilegur. Það sem var satt fyrir fimm árum er ekki endilega satt lengur, reyndar oftast ekki. Það er mjög margt sem breytist á hverju ári í þessum málaflokki og hvað þá á mörgum árum. Það er ekkert skrýtið að fólk sé fáfrótt um útlendingamál, það er þokkaleg vinna að koma sér almennilega inn í þau, jafnvel fyrir fólk sem hefur það að atvinnu.

Það er ýmislegt sem sést á orðræðu hv. þingmanna Miðflokksins, t.d. það að alla vega sumir þeirra vilja meina að aðilar sem koma hingað og sækja um hælisvernd séu með vernd í öðru Evrópuríki, eins og Grikklandi og Ítalíu. Fólk sem þekkir þennan málaflokk veit alveg að fólk með vernd í þessum ríkjum hefur það bara mjög slæmt og jafnvel verra en fólk sem er að bíða eftir svari því að það er þó alla vega einhver stuðningur við það, sem fólk missir þegar það fær stöðuna. Það býr bara við skelfilegar aðstæður í þessum löndum og þar eru aðstæður skelfilegar vegna þess að Evrópa brást svo hryllilega illa og rangt við flóttamannakrísunni á sínum tíma. Allar þjóðir í Evrópu, eða langlangflestar, reyndu að ýta vandanum á einhvern annan, setja álagið einhvers staðar annars staðar og auðvitað lendir það þá í ystu lögum sambandsins, nefnilega Grikklandi og Ítalíu. Allt álagið er þar vegna þess að Evrópa vinnur ekki saman í að takast á við álagið. Það væri lausnin. Mistökin sem hafa verið gerð eru ekki þau að hafa galopin landamæri heldur þvert á móti að setja allan þrýstinginn á kerfin og innviðina í einstaka löndum. Öll lönd í Evrópu, meira eða minna, reyndu að taka sem minnstan þátt í því að taka á móti þessu fólki. Það voru mistökin, virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmönnum Miðflokksins að við eigum að læra af mistökunum. Við þurfum átta okkur á því hver mistökin eru og hvað við ætlum að læra af þeim.

Ég kom ekki hingað upp bara til þess að úthúða Miðflokknum fyrir hans afleita málflutning í þessu máli sem og útlendingamálum almennt heldur líka til að benda á það að þetta er einfalt og lítið frumvarp sem felur í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð sem við þekkjum og kemur fram á bls. 5 í frumvarpinu og er 23,7 milljónir. Það er útskýrt í hverju þessi kostnaður felst. Þetta er bara fínt frumvarp. Að sjálfsögðu styð ég það eins og fólk sem les það og er ekki að leika einhverja pólitíska leiki og ég vona að það nái fram að ganga. Ég ítreka bara að jafnvel þó að það nái ekki fram að ganga þá breytist ekkert nema það að lífið verður aðeins flóknara í Fjölmenningarsetri, að óþörfu.