Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið öðru sinni. Ég er sammála því að við eigum að breyta lögum eftir þörfum. Það er engin þörf á að breyta lögum til að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag. Engin. Ég hef verið sökuð um að vera í mótsögn við sjálfa mig þegar ég annars vegar gagnrýni þetta frumvarp og segi síðan að það sé gagnslaust og að það breyti engu. Fólk verður mjög ringlað þegar ég segi þetta.

Það sem ég á við er: Það er gagnslaust til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það breytir engu varðandi þær áskoranir og þau vandamál sem við þurfum að leysa og ég held að við séum öll sammála um að það skapi áskoranir að hingað leiti fleira fólk, ég ætla ekkert að gera lítið úr því. Hins vegar er engin þörf á þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Eina breytingin í frumvarpinu sem þörf er á er síðasta ákvæðið sem snýst um það að fólk sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða megi vinna hérna eða stofna fyrirtæki. Sú tillaga hefur ítrekað verið lögð fram af hálfu þeirrar er hér stendur en hún hefur ekki verið samþykkt af meiri hlutanum, sennilega vegna þess að þau vilja áfram nota það ákvæði sem, svo ég vísi í orð hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, „sykurpillu“ til að kyngja restinni af ógeðinu vegna þess að allt annað sem er í þessu frumvarpi er eitthvað tilfallandi sem Útlendingastofnun dettur í hug hverju sinni til þess að reyna að takmarka einhvern fjölda einhvers staðar. Það eru oftast mjög fá mál sem eru á bak við þær breytingar sem þau vilja gera en munu bitna á fólki, raunverulegu fólki af holdi og blóði, raunverulegum flóttamönnum. Ekki einhverjum efnahagsflóttamönnum eða öðrum. Það er það sem er óásættanlegt við þetta frumvarp. Það er óásættanlegt að breyta einhverjum reglum til að koma í veg fyrir einhver tvö svindl sem gerðust þar að auki fyrir þremur árum, og má deila um hvort það hafi verið svindl yfir höfuð eða ekki, sem bitnar á fólki sem er í raunverulegri hættu. Það er það sem er verið að gera. Það er bara galið. Þetta er bara klaufalegt. Þetta er bara aulalegt og þetta leysir engan vanda. (Forseti hringir.) Þetta skapar vandamál, skapar tregðu í kerfinu, gerir líf fjölda fólks ömurlegt að óþörfu, algerlega að óþörfu.