151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:12]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Uppbygging Akureyrarflugvallar, stækkun flugstöðvar og flughlaðs. Við samþykktum hér á þingi fjárfestingaráætlun fyrir 18 milljarða vegna Covid í lok mars í fyrra. Þetta var í fyrsta fjárauka af fimm í fyrra. Þá var m.a. ákveðið að fara í framkvæmdir við stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli, og settar 200 milljónir í það verk, og stækkun flughlaðs á Akureyrarflugvelli fyrir 315 milljónir. Þetta var hugsað sem fjármagn til að hefja framkvæmdir við þessi mikilvægu verkefni. Síðar kom fram að klára ætti framkvæmdirnar í gegnum fjárfestingarátak ríkisstjórnar fyrir árin 2021, 2022 og 2023 en það er sérstakt 60 milljarða fjárfestingarátak sem viðbragð við Covid-efnahagsáfallinu.

Í gær var haldinn fundur á vegum Markaðsstofu Norðurlands þar sem fjallað var um uppbyggingu Akureyrarflugvallar í tengslum við millilandaflug til og frá flugvellinum. Þar kom m.a. fram að framkvæmdir eru komnar af stað, verklegar framkvæmdir eru hafnar og mikil hönnunarvinna. Það kom m.a. fram hjá fulltrúa innanlandsdeildar Isavia að vinnu við hönnun nýrrar flugstöðvar ljúki núna í mars. Tímalína Isavia, sem er framkvæmdaraðili fyrir hönd ríkisins í þessu verkefni, gerir ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í maí, júní 2023 þegar lokið verður við malbikun nýs flughlaðs.

Það eru miklir möguleikar í íslenskri ferðaþjónustu eftir Covid. Það er klárlega mikill ferðavilji erlendis og til að sækja okkur heim. Við höfum góða vöru að bjóða þar sem fólk getur ferðast um landið, sótt í fámennið og notið kyrrðar í íslenskri náttúru. Við eigum gríðarmikla möguleika í þessari stöðu. Hér er líka rétt að líta til þess að um er að ræða mikilvægar framkvæmdir við uppbyggingu alþjóðaflugvallakerfisins í landinu. Við erum að efla varaflugvallakerfi landsins og við þurfum líka að líta til mikilvægis Egilsstaðaflugvallar og Reykjavíkurflugvallar í því samhengi.