131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[21:16]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er meiningin af ríkisins hálfu að kaupin á sveitarfélögunum út úr Landsvirkjun verði borin af Landsvirkjun sjálfri er augljóst mál að sá hluti málsins tengist hinum hlutanum, sameiningu fyrirtækjanna. Ef svo er hins vegar ekki eru það út af fyrir sig óskyld mál og þurfa ekki að blandast saman.

Ég vek athygli á því að það eru ekki bara þeir sem hafa tengst Orkubúi Vestfjarða eða hagsmunum þeirra sem búa á Vestfjörðum sem hafa sett fram efasemdir um þetta mál heldur líka fulltrúar Akureyrarkaupstaðar og Skagafjarðar, þeir sem tengjast Norðurorku og Skagafjarðarveitum. Það eru fleiri en Vestfirðingar einir sem horfa á málin og velta fyrir sér hvort sú hugmynd sem komin er fram sé sú besta út frá þeirra bæjardyrum séð. Ég held að menn þurfi að fá miklu betri upplýsingar um þessa fyrirhuguðu sameiningu fyrirtækjanna þriggja áður en hægt er að meta hana til fulls. Miðað við þær upplýsingar og þá þekkingu sem maður hefur á þessum fyrirtækjum sé ég ekki að þetta sé vænleg leið. Ég verð bara að segja það alveg eins og er. Það kunna að leynast einhver tækifæri í því eins og hér hefur verið sagt en ég sé þau ekki. Við fáum þá væntanlega einhvern tíma fljótlega upplýsingar um það og yfirferð yfir málið. Ég geri ráð fyrir því að þingmenn kjördæmisins muni fylgjast með þessu máli á næstunni og þegar málið skýrist frekar en orðið er ráði þeir ráðum sínum um hvernig eigi að ráða málum til lykta þegar þar að kemur, a.m.k. geri ég ráð fyrir því að svo verði.