145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:04]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til þess að lýsa vanþóknun minni í tengslum við atkvæðagreiðslu á þeirri störukeppni sem hér er. Hér koma menn í ræðustól eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson og hrósa ræðum manna sem haldnar voru í nótt. Það er reyndar alveg rétt, hér hafa verið haldnar mjög góðar ræður í þessari fjárlagaumræðu, góðar ræður og efnismiklar að gefnu tilefni, vegna þess að fjárlögin sem við erum að fjalla um eru þannig sniðin að ekki fer hjá því að þau sæti gagnrýni og þarfnist endurskoðunar við eins og við höfum í okkar góðu ræðum rökstutt núna um alllanga hríð.

Þessi málflutningur þingmannsins stangast hins vegar á við ásakanir sem við höfum á hinn bóginn setið undir um að við séum með málþóf (Gripið fram í.) sem fær náttúrlega engan veginn staðist í ljósi þess hversu efnisrík umræðan hefur verið eins og hefur nú verið staðfest hjá þingmönnum stjórnarliðsins. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er allt í lagi að lengja þingfund. Við höfum aldrei lagst gegn því, en við förum engu að síður fram á það (Forseti hringir.) í fullri sanngirni að okkur sé sagt hversu lengi þingfundur á að standa.