149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

skerðing bóta TR vegna búsetu erlendis.

[10:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það hefur aðeins sett mig úr jafnvægi að sjá Klaustursmenn sitja hérna inni í þessum sal eins og ekkert hafi í skorist, en við verðum að halda áfram.

Þann 20. júní 2018 skilaði umboðsmaður Alþingis áliti þar sem hann lýsir því að Tryggingastofnun ríkisins hafi um árabil viðhaldið rangri lagatúlkun á lögum um almannatryggingar og EES-reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerðin heimilar íslenskum stjórnvöldum ekki að skipta framreiknuðum búsetutíma umsækjanda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabils milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nýtur ekki bóta frá hinu ríkinu. Þá kemur fram að samkvæmt orðalagi 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar skuli reikna öll árin fram að 67 ára aldri til búsetu á Íslandi. Það er í raun mjög skýrt að það er algerlega óheimilt samkvæmt EES-reglugerðinni og samkvæmt íslenskum lögum að framreikna búsetutíma hlutfallslega með þeim hætti sem var gert.

Afleiðingarnar af þessu eru að mikill fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þurft að búa við ólögmætar skerðingar af hálfu ríkisins. Íslenska ríkið hefur ólöglega skert tekjulægsta hópinn á Íslandi um marga milljarða. Ráðuneytið hefur tekið undir túlkun umboðsmanns Alþingis og hefur nú það hlutverk að leiðrétta þetta brot og bæta þeim öryrkjum sem hafa orðið fyrir þessum ólögmætu skerðingum skaðann. Sumir þessa einstaklinga hafa þurft að lifa í fjötrum fátæktar í mörg ár með tekjur sem ná varla upp í matarkostnað, hvað þá húsnæðiskostnað og allt annað sem til þarf til að lifa mannsæmandi lífi.

Á vef TR kemur fram að stefnt sé að því að niðurstaða í málinu liggi fyrir í lok janúar og verður þá breytt framkvæmd kynnt. Í framhaldinu verði farið í að vinna hvert mál fyrir sig. Af þessu má draga þá ályktun að ólögmætum búsetuskerðingum verði hætt um mánaðamótin.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Getur hann staðfest að breytingin til framtíðar muni koma til framkvæmda í lok mánaðar og verði þá einnig byrjað að greiða samkvæmt nýjum útreikningum? Ef ekki, þá hvenær? Hvenær munu örorkulífeyrisþegar fá endurgreitt það sem skert hefur verið ólöglega undanfarin ár og áratugi?

Þá er uppi skýr krafa frá hagsmunasamtökum örorkulífeyrisþega að greitt verði tíu ár aftur í tímann. Mun ráðherra gera það?