Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

viðbrögð stjórnvalda við verðbólgu.

[13:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarpið0 núna í haust með því að það verði viðspyrna gegn verðbólgu og það ætti að treysta kaupmáttinn. Forsætisráðherra kemst ekki hjá því að átta sig á því að hækkanir ríkisstjórnarinnar á bensíni, á búsinu og á búvörum ekki síst hafa leitt til þess að verðbólgan er núna að hækka en ekki lækka í mánuði sem hún alla jafna á að lækka. Ef Viðreisn hefði verið í stjórn þá hefðum við ekki verið að hækka gjöldin núna í samræmi við verðlag. Við hefðum sett meiri byrðar á breiðu bökin eins og sjávarútveginn og fiskeldið. Við hefðum lækkað tollana á nauðsynjavörur íslenskra heimila og hætt við sérreglur á mjólkurvöru, lagt niður verðlagsnefnd búvara og við hefðum farið í beingreiðslur til bænda. Við hefðum nýtt og við hefðum treyst á samkeppnina, treyst á frelsið í baráttunni við verðbólguna.

Auðvitað hefðum við líka, virðulegur forseti, farið strax í það ferli að losa kverkatakið sem íslenska krónan hefur á heimilum landsins því að annars lenda ekki bara börnin okkar heldur líka barnabörnin og barnabarnabörnin í þessum endalausa rússíbana verðbólgu og okurvaxta. (Forseti hringir.) Misréttið í samfélaginu mun halda áfram ef við tökum ekki á þessu (Forseti hringir.) þar sem heimilin á Íslandi eru sett undir það að bera upp íslensku krónuna meðan breiðu bökin (Forseti hringir.) og vinir ríkisstjórnarinnar fá að leika sér fyrir utan íslenska krónuhagkerfið.