Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[13:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en það er eiginlega ekki boðlegt. Er það sem sagt þannig að gjörbylting á verkefni sem kallar fram 650% kostnaðarauka verði ekki rædd einu orði í þinginu? Er það bara rætt í einhverjum stýrihópi úti í bæ? Er þetta regluverkið sem ríkisstjórnin er búin að ramma inn? Önnur eins meðferð á opinberum fjármunum, ég bara man ekki eftir viðlíka. Þetta er svona svipað eins og að það eigi að leggja malbik á sveitaveg einhvers staðar úti á landi og síðan ákveði sveitarstjórnin í einhverju kaffispjalli að gera frekar jarðgöng undir hálsinn en að leggja malbik á vegarspottann. Þetta er alveg með ólíkindum. Þarna er einn verkliður að fara úr 2,7 milljörðum í 17,7 og það á bara að ræða þetta í einhverju kaffispjalli í einhverjum stýrihópi. Ef við höfum einhverja sjálfsvirðingu hér í þinginu þá gerum við kröfu um að fá að ræða þetta og fleira sem þessu máli tengist hér í þinginu.