Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Frá því að ég talaði síðast hafa nokkrir hv. kollegar mínir komið hérna upp og m.a. nefnt að það virðist, eins og ég talaði um, sem verið sé að þrýsta málinu í gegn, það megi ekki breyta neinu og allt sé þetta vegna þess að það er eitthvert samkomulag í gangi. Þá er kannski gott fyrir þá sem eru að horfa á þessa útsendingu að fá aðeins innsýn í það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig við ríkisstjórnarborðið. Það er einfaldlega þannig að þegar flokkarnir koma með svona umdeild mál þá fara þeir í hrossakaup og hrossakaupin eru að útlendingafrumvarpið frá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra fær að fara í gegn gegn því að eitthvert annað frumvarp frá öðrum ráðherra Vinstri grænna, sem Sjálfstæðismenn eru kannski óánægðir með en til í að sætta sig við, fari í gegn. Sama með Framsókn sem fær að velja einhver mál hjá sér sem fá að fara í gegn. Þarna er ekki verið að horfa á það hvað er þjóðinni fyrir bestu eða hvað tryggi mannréttindi eða stjórnarskrá eða neitt slíkt. Nei, nei, þetta eru bara gamaldags hrossakaup, pólitísk hrossakaup.

Það væri gaman fyrir okkur að vita hvað hinir flokkarnir eru raunverulega að fá fyrir sinn snúð. Hvað fá hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna fyrir það að láta gildi sín, mannúð og annað bara fjúka út í veður og vind? Hvað ætli þau fái í staðinn? Kannski eitthvað umhverfistengt, kannski að eitthvað annað fari ekki í gegn hjá Sjálfstæðisflokknum, kannski var eitthvað enn verra sem við vitum ekki af. Þau þora ekki einu sinni að vera hreinskilin með það hvað þau fá í staðinn fyrir að gefa Sjálfstæðisflokknum leyfi til að setja lög sem brjóta stjórnarskrá og mannréttindi. Til þess að selja sjálfum sér það að þau hafi ekki algerlega selt sálu sína þá fara þau í einhverjar gaslýsingar gagnvart eigin kjósendum, að þetta sé svo miklu betra heldur en það var af því að Vinstri græn eru búin að gera það svo gott, af því að þau voru á móti hlutum sem voru mjög slæmir. En það hefði aldrei farið þannig í gegn heldur. Þetta er bara selt svona: Við gerðum þetta svo manneskjulegt. Já, þau gerðu það það manneskjulegt að það brýtur enn þá í bága við stjórnarskrá og mannréttindi. Þau gerðu þetta svo skilvirkt. Nei, þetta er ekkert orðið skilvirkt.

Maður spyr sig: Hvað þarf til þess að geta selt gildi sín svona ódýrt? Stendur VG kannski orðið fyrir valdagræðgi? Ég veit það ekki. Ég þori að veðja einu við ykkur sem eruð að hlusta, að þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál verða einn eða tveir þingmenn sem fá að segja nei bara til þess að það líti nú út fyrir að það séu einhverjir innan Vinstri grænna sem enn þá trúa á mannúð. Rétt eins og það voru einhverjir örfáir sem voru látnir greiða atkvæði gegn rammaáætlun í vor svo það liti út eins og Vinstri græn væru enn þá grænn flokkur en ekki bara valdagræðgisflokkur.