Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er mjög flókinn málaflokkur af nokkrum ástæðum. Við erum að glíma við mjög viðkvæman hóp fólks sem sækir um alþjóðlega vernd, hefur orðið fyrir ofsóknum hér og þar um heiminn af mjög fjölbreyttum ástæðum. Við höfum verið með flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna alveg frá 1951 sem var ætlað að koma í veg fyrir allt sem fór úrskeiðis í seinni heimsstyrjöldinni með tilflutning fólks á þeim tíma, hvernig t.d. Ísland tók ekki við gyðingum á þeim tíma og ýmsum öðrum. Ísland hefur skrifað undir þennan flóttamannasáttmála og í rauninni kannski gert gott betur en það, sem er allt gott og blessað enda hefur margt breyst síðan seinni heimsstyrjöld var og þegar flóttamannasáttmálinn var lögfestur.

Þetta gerir okkur á sama tíma dálítið erfitt fyrir að útskýra heildarsamhengið í þessum breytingartillögum og ég ætla að renna aðeins yfir það. Þetta eru 11 atriði sem verið er að ræða um hérna í greinargerðinni. Það eru umsækjendur sem hafa þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, síðan er það sjálfkrafa kæran, endurtekin umsókn, vinnsla persónuupplýsinga, umsóknir barna um alþjóðlega vernd, skerðing og niðurfelling réttinda, tafir á ábyrgð umsækjanda, málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, meðferð mála um ríkisfangsleysi, verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra verða lögbundin og síðan undanþága frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi. Skylda stjórnvalda er að taka hverja einustu umsókn og greina hana út frá einstaklingsaðstæðum viðkomandi umsóknaraðila. Það er ekki létt ferli. Það er bara mjög flókið ferli því að aðstæðurnar geta verið mjög mismunandi í mismunandi löndum fyrir mismunandi einstaklinga. Viðtalið og matið sem er búið að búa til til að meta hvort viðkomandi falli undir þau skilyrði að fá alþjóðlega vernd er bara rosalega strembið ferli. Þegar ferlið er strembið þá tekur það tíma. Það þarf að safna gögnum um alls konar.

Við höfum heyrt sérstaklega hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fara yfir málið í ræðum sínum á mjög víðan og fjölbreyttan hátt og hún hefur unnið í málaflokknum mjög lengi. Ég sem hef ekki verið eins djúpt inni í málaflokknum og hv. þingmaður sé vel hversu flókið það er að skilja svona utan frá hvað er í raun og veru að gerast. Þegar við tökum þessi 11 atriði og breytingartillögur á þeim og viðbætur, bráðabirgðaákvæðið sem er núna verið að bæta við, er rosalega flókið að átta sig á heildarsamhengi málanna. Þýða breytingar á einu ákvæði einhverjar hliðarverkanir fyrir ferlið á öðrum stöðum t.d.? Við erum síðan með mismunandi leiðir fyrir fólk eftir því hvort það er búið að fá vernd annars staðar, hvort það er undir Dyflinnarreglunni, hvort það er utan EES, hvort það er innan EES, alls konar mismunandi leiðir sem fara í mismunandi ferli sem mismunandi tillögur hafa áhrif á og svona krossvíxlanir þar á. Það er ekki fyrir leikmenn að átta sig á því í alvörunni um hvað þetta mál snýst bara með því að lesa frumvarpið. Það er því miður flóknara en svo.

Það besta sem fólk getur gert til að reyna að átta sig á stöðunni er að lesa umsagnir þeirra sérfræðiaðila sem láta sig þennan málaflokk varða en þau eru líka sérfræðingar í málaflokknum og eru ekki endilega að útskýra málið á aðgengilegan hátt fyrir almenning í heildarsamhengi hlutanna og svoleiðis því að heildarsamhengið hérna er stórt. Þetta er ekki bara viðkvæmur og mikilvægur málaflokkur ef við skoðum söguleg dæmi þess heldur er hann líka mjög viðamikill í umfangi núna eftir t.d. stríðið í Sýrlandi og hina miklu fólksflutninga sem hafa orðið vegna ófriðar á undanförnum árum. Það er bara ekki fyrir heilbrigðan mann að ætla sér skynsamlega stuttan tíma til þess að kynna sér þetta mál og átta sig á því hvað er verið að gera hér.

Þess vegna er rosalega erfitt að lesa hérna, með leyfi forseta, Í tilefni og nauðsyn lagasetningar þar sem segir:

„Fjölgun umsókna undanfarinn áratug sýnir hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við,“ — eitt atriði — „eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki.“

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er þetta eitthvað sem við hljótum öll að vera sammála um; að þau sem eiga raunverulega rétt á aðstoð, á alþjóðlegri vernd, það sé betra fyrir alla að þau fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu og viti strax, sem fyrst, hvort þau eigi rétt á þeirri vernd eða ekki. Ég veit ekki um neinn sem ekki vill það, meira að segja fólk sem er á kafi í útlendingahatri vill þetta, eftir því sem ég best veit. Einnig eru allir sammála um að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki og að þeir sem eigi ekki rétt á alþjóðlegri vernd fái að vita það sem fyrst. En við glímum hérna við ákveðna tvíhyggju, það má orða það þannig, það er fólkið sem á þennan rétt og fólkið sem á ekki þennan rétt. Það er ekki auðvelt að greina þarna á milli í mörgum tilfellum. Stundum eru kröfunnar of miklar. Er verið að gera meiri kröfur núna t.d. bara til þess að takmarka þann fjölda sem á í raun og veru rétt á alþjóðlegri vernd? Það er óljóst hvort það sé í rauninni verið að gera það. Það gæti alveg verið og það er ekkert ólíklegt, meira að segja miðað við að það er verið að fella út réttinn til þjónustu eða stytta kærufrestinn o.s.frv. Það getur haft þau áhrif að sumir sem eiga rétt á alþjóðlegri vernd núna missi einhvern veginn af því, ef þetta frumvarp verður samþykkt. Það er raunhæfur möguleiki. Það eru kannski ekki margir en um leið og það er einn þá held ég að allir séu sammála um að það sé einum of mikið.

Við erum með mjög mikið af fólki sem uppfyllir margar af kröfunum, kannski ekki allar, og það tekur tíma að greina hvert einasta dæmi og meta hvort viðkomandi á rétt á vernd eða ekki. Og það að ferlið skuli vera svona stórt og viðamikið og flókið — það þarf að hafa samband við mörg lönd til að fá upplýsingar, það er fólk sem kemur hér án vegabréfa eða skilríkja og það er flókið, það er verið að gera aldursgreiningar og það er líka flókið og tekur tíma, hversu ónákvæmt það er er líka vandamál — gerir það að verkum að þegar við erum að fá svona breytingar eins og er verið að fjalla um hérna, þar sem er sagt að þetta eigi að auka skilvirkni án þess að það sé augljóst hvernig það gerir það, það er ekki útskýrt, þá hljótum við, þingið hérna, í ljósi þess að við viljum tryggja skjóta og mannúðlega þjónustu, að spyrja hvernig. Hvernig náum við þessum markmiðum? Því að við viljum ná þessum markmiðum en við nánari greiningu þá sjáum við bara meiri pappírsvinnu hér og þar í ferlinu, sem ég átta mig ekki á hvernig getur stytt neina málsmeðferð. Ef eitthvað er þá býr það til meiri stjórnsýslu og meiri möguleika til kæru vegna þess að þar færi viðbótarákvörðun, sem er jafnvel ekki málefnaleg, sem er þá kæranleg. Og uppi stöndum við með einmitt (Forseti hringir.) óskilvirkara kerfi. Vísbendingarnar eru tvímælalaust á þann veg, (Forseti hringir.) ef við reynum að leysa þetta í samhengi, að þetta frumvarp sé ekki að ná markmiðum sínum.