Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Áfram held ég í yfirferð minni yfir 2. gr. frumvarpsins er varðar sjálfvirka kæru í ákveðinni tegund mála og lögbundinn greinargerðarfrest. Ég var enn að fjalla um umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta ákvæði sem varpar mjög skýru ljósi á þau vandkvæði sem felast í þessum breytingum þrátt fyrir að þær virðist sakleysislegar við fyrstu sýn en Rauði krossinn á Íslandi sá nánast alfarið um réttindagæslu við flóttafólk fram til febrúar eða mars á síðasta ári þegar núverandi dómsmálaráðherra ákvað að framlengja ekki samning við félagið og, hvað eigum við að segja, ónýtti þar með áralanga reynslu, reynslubanka af meðferð þessara mála frá því sjónarhorni. Með leyfi forseta:

„Að lokum vill Rauði krossinn benda á að í nágrannaríkjum á borð við Svíþjóð og Noreg er kærufrestur í sambærilegum málum 21 dagur frá birtingu ákvörðunar, og er ekki að því vikið í frumvarpinu hvers vegna ekki er gert fyrir sambærilegum tíma hér á landi og í nágrannaríkjunum.“

Er þetta kaldhæðnislegt, ekki síst í ljósi þess að í greinargerð með frumvarpinu og ekki síst í máli flutningsmanna frumvarpsins er því ítrekað haldið fram að tilgangur þessara breytinga sé að laga núgildandi löggjöf að löggjöf annarra ríkja, í nágrannalöndunum. Það er hins vegar alls ekki svoleiðis. Það er eitt dæmi um það í þessum lögum og þar er meira að segja rangt farið að við innleiðinguna og mun ég fjalla um það þegar þar að kemur, en það er í 7. gr. laganna. Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Verði ákveðið að afnema kærufrest með þessum hætti leggur Rauði krossinn til að frestur til skila á greinargerð til kærunefndar verði 21 dagur í stað 14 daga.

Er því lagt til að 2. gr. frumvarpsins verði svohljóðandi:

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun um efnislega meðferð á grundvelli 36. gr. sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski sérstaklega að svo verði ekki og skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd útlendingamála innan 21 dags frá birtingu ákvörðunarinnar.“

Hér gerir Rauði krossinn svo skýra breytingartillögu við þetta frumvarp að meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar hefði verið í lófa lagið að klippa þetta og líma úr umsögn Rauða krossins og inn í frumvarpið, svo skýr og þægileg er framsetning Rauða krossins á þessari tillögu sinni, eins og Rauði krossinn gerir jafnan með þær tillögur sem félagið gerir við frumvörp til að auka líkurnar á að þær verði teknar upp þar sem í rauninni er verið að spara nefndinni vinnu við að laga frumvörp, þau sem nefndin er að fjalla um. Hvað gerði meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar? Ekki neitt. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar sá enga ástæðu til að bregðast við þessari einföldu tillögu sem snýst um að halda þessari sjálfkrafa kæru inni en lengja greinargerðarfrest. Á það var ekki fallist. Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Verði ekki fallist á framangreint leggur Rauði krossinn til að ákvæðið standi óbreytt og að verklagi hjá Útlendingastofnun verði breytt, með formlegum hætti, til að tryggja að stofnunin sinni rannsóknarskyldu sinni og að umsækjandi hafi tækifæri til að leggja fram öll nauðsynleg gögn í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útl.“

Líkt og ég nefndi í upphafi fyrstu ræðu minnar um þetta ákvæði, og hef reyndar nefnt oftar, þá virðist þetta ákvæði sakleysislegt við fyrstu sýn. En þrátt fyrir það sáu fjölmargir umsagnaraðilar ástæðu til að gera athugasemd við þessa tillögu, þetta ákvæði, og leggjast jafnvel beinlínis gegn þessari breytingartillögu. Þar á meðal eru Rauði krossinn á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty International, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og fleiri aðilar. Þarna erum við að tala um það sem kalla má kannski eitt af sakleysislegri ákvæðum þessa frumvarps. Ég hvet öll til að lesa gaumgæfilega umsagnirnar við frumvarpið, ekki síst þessar umsagnir sem ég nefndi, en af hátt í 20 umsögnum sem bárust held ég að allar nema ein eða tvær leggist gegn þessu frumvarpi.