Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins ræða um eina ákvæðið í þessu frumvarpi sem eitthvert vit er í. Það er ákvæði um að atvinnuréttindi fylgi einnig dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hvers vegna vil ég tala um þetta? Það sem fólk á flótta sækir um þegar það kemur hingað til lands er að fá hér dvalarleyfi. Við veitum útlendingum dvalarleyfi á alls konar mismunandi forsendum, m.a. á þeim forsendum að þau séu flóttamenn í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá fá þau svona sæmilega gott dvalarleyfi miðað við allt og allt, fá dvalarleyfi sem endist í fjögur ár og þau fá svokallað ótakmarkað atvinnuleyfi, þ.e. þau mega bara leita sér að vinnu, óska eftir vinnu og vinna á Íslandi hjá þeim sem vilja veita þeim vinnu. Þau mega líka hefja sinn eigin rekstur og almennt taka þátt í samfélaginu eins og venjuleg fullorðin manneskja sem vill vinna fyrir sér á einn eða annan hátt. Þetta er gott dvalarleyfi einmitt af þessum orsökum, fólk fær tiltölulega gott öryggi upp á það að fólk getur verið í fjögur ár á Íslandi og það eru ágætar líkur á að þetta verði framlengt. Ef það er framlengt einu sinni þá nær fólk mjög líklega meira að segja að fá svokallaðan rétt til ótímabundinnar dvalar og jafnvel rétt til að fá ríkisborgararétt, en það er kannski aðeins seinna.

Þetta dvalarleyfi flóttafólks — það fær atvinnuleyfi og þetta atvinnuleyfi er eins og ég segi, ótakmarkað. Þetta sama dvalarleyfi fær fólk með svokallaða viðbótarvernd, fólk sem fær dvalarleyfi með viðbótarvernd og það er í raun mjög sambærilegt stöðu flóttamanns en þú fellur ekki beinlínis nákvæmlega undir frekar þrönga skilgreiningu flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna um hvað telst flóttamaður. En merkilegt nokk, öfugt við það sem flestir kynnu að halda, þá eru einmitt oftast þeir sem eru að flýja stríðshrjáð svæði eins og t.d. flóttafólk frá Úkraínu, sem er beinlínis að flýja stríðsátök — það fólk fær oftast þessa viðbótarvernd en ekki vernd sem flóttamenn vegna þess að fólk sem er að flýja stríðsátök sem slík er ekki endilega eiginlegir flóttamenn, en fólk sem flýr stríðsátök samkvæmt okkar lagaumhverfi á rétt á sambærilegu dvalarleyfi og fólk sem fellur undir skilgreininguna á flóttamanni og fær dvalarleyfi á grundvelli þess, þ.e. þau fá þessi fjögur ár og þau fá ótakmarkað atvinnuleyfi, mega hefja sinn eigin rekstur, mega vinna hjá hverjum sem vill ráða þau í vinnu.

En snúum okkur nú að þessu atriði sem ég er að benda á. Síðan er töluvert um að stjórnvöld veiti svokallað dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þetta er svona dvalarleyfi sem oftast er gripið til þegar önnur dvalarleyfi — þ.e. þegar ekki er hægt að veita, samkvæmt útlendingayfirvöldum, ríkari vernd, ekki hægt að veita stöðu flóttamanns, ekki hægt að veita viðbótarvernd, þá ber Útlendingastofnun samt að athuga hvort rétt sé að láta einstakling fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þetta dvalarleyfi er töluvert síðra og verra dvalarleyfi, ekki bara vegna þess að það gildir bara í eitt ár með möguleika á endurnýjun í allt að þrjú ár, heldur líka vegna þess að í því felst ekki ótakmarkað atvinnuleyfi.

En vegna þess að tíminn sem okkur er gefinn í þessari umferð, virðulegi forseti, er svo skammur þá næ ég ekki að fara yfir eina atriðið í þessu frumvarpi sem eitthvert vit er í. Það snýr einmitt að því að breyta því a.m.k. að fólk fái ekki ótakmarkað atvinnuleyfi með dvalarleyfi af mannúðarástæðum. En ég þarf að taka upp þráðinn að nýju í næstu ræðu, virðulegi forseti, til að ræða um nákvæmlega þann þátt. Ég óska því eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.