Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Við skulum hafa í huga að þetta mál er að koma hér inn til 2. umr. í síðasta sinn af þeim fimm skiptum sem einhver útgáfa þessa frumvarps hefur verið lögð fram. Í öll hin skiptin hefur það verið það slæmt að enginn hefur treyst sér til þess að klára það. En nú er einhvern veginn verið að setja undir sig hausinn og reyna að keyra þetta í gegn. Stjórnarþingmenn mæta ekki hingað til þess að verja frumvarpið en kalla í fjölmiðlum að gera þurfi einhverjar breytingar. Við erum hérna, Píratar, enginn annar, að lýsa þeim vanköntum sem eru á frumvarpinu. Þeir eru margir, þeir eru flóknir þannig að það þarf ansi mikið til.

Við skulum átta okkur á því, áður en einhver fer að garga á okkur málþóf eða eitthvað svoleiðis fyrir að útskýra þetta viðamikla frumvarp og gallana á því, að sumir stjórnarliðar hafa sagt að það séu gallar á frumvarpinu og það þurfi breytingar til. Við höfum rétt fyrir okkur en þau (Forseti hringir.) vilja ekki segja okkur hvaða breytingar þau telja að gera þurfi á frumvarpinu til að það sé ásættanlegt fyrir þau. (Forseti hringir.) Þá getum við illa talað um málið í 2. umr. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við fáum allar breytingar inn á gólfið fyrir 2. umr. en ekki 3. umr.