Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þá beiðni að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra taki þátt í þessari umræðu. Við höfum náttúrlega á fyrri stigum máls reynt að fá ráðherra félags- og vinnumarkaðsmála hingað í sal og ekki gengið vel. Stundum á hann ekki heimangengt. Stundum kemur hann inn í húsið en nær bara að drífa inn í sal undir öðrum dagskrárliðum. Það er alla vega ljóst að hann vill ekki taka þátt í þessari umræðu því að væntanlega hefur hann slæman málstað að verja. Ég vona að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sýni meiri kjark, þori að mæta okkur, þori að segja hvað honum finnst um t.d. þá staðreynd að það eigi að láta börn líða fyrir það sem Útlendingastofnun telur vera óeðlilegar tafir á ábyrgð foreldra þeirra varðandi umsókn. Hvernig getur barnamálaráðherra verið sáttur við það? Eiga ekki börn sjálfstæðan rétt til verndar? Eiga börn ekki heimtingu á því að þeirra mál séu skoðuð óháð málum foreldra þeirra? (Forseti hringir.) Sé svo þá getur þessi ráðherra varla stutt þetta mál óbreytt.