Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

sala Íslandsbanka.

[14:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þetta hljóta að þykja furðulegt svör. Við umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu ríkisendurskoðanda taldi fyrrum umboðsmaður Alþingis upp langan lista af lögfræðilegum úrlausnarefnum sem enn er ósvarað, langan lista, úrlausnarefnum eins og hvort ákvörðun fjármálaráðherra um að skoða ekki einstök tilboð heldur að útvista því til starfsmanna Bankasýslunnar samræmist lögum og reglum. Þetta er bara eitt úrlausnarefni sem ríkisendurskoðandi sjálfur segir að hann hafi ekki skoðað og þar af leiðandi ekki svarað. Skýrsla ríkisendurskoðanda, að eigin sögn, svarar ekki þeim úrlausnarefnum, svarar ekki þessum spurningum. Það hlýtur að skipta ráðherra máli að fá svör við þessum spurningum eða það hlýtur alla vega að skipta máli að hún og ríkisstjórnin öll sýnist vilja fá svör við þessum spurningum, bara svona upp á traust að gera og ásýnd. En ef ríkisendurskoðandi telur sig ekki geta svarað þessum álitaefnum — ég veit að fjármálaeftirlitið er ekki að fara að svara þessum álitaefnum, það er ekki í verkahring þess — og ekki fæst samþykkt af meiri hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fá lögfræðiálit og ekki má setja á fót rannsóknarnefnd, (Forseti hringir.) hvar fáum við þá svörin? (Forseti hringir.) Hver á að svara þessum mikilvægu spurningum? Skiptir það ekki máli að fá svör við þessu?