Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Áður en ég fer aftur yfir í efnislega umfjöllun um frumvarpið langar mig aðeins að tala um ákveðinn frasa sem ég hef heyrt oft hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Það er að málið fari í gegnum þinglega meðferð. Það umhverfi sem við búum við hérna á Alþingi er þannig að þegar mál koma inn til 1. umr. og í 1. umr. er horft til þess að sérstaklega við hv. þingmenn sem sitjum kannski ekki í þeirri nefnd sem málið er að fara til getum komið á framfæri okkar skoðunum sem við viljum að nefndarmenn í viðkomandi nefnd horfi til þegar fjallað er um málið í henni.

Fyrir 2. umr. fer málið í gegnum nefnd. Og nú get ég bara rætt út frá minni reynslu í því að vera í t.d. atvinnuveganefnd. Þar fengum við t.d. inn mál á síðasta þingi sem var nokkuð umdeilt en það gekk út á að auka heimildir Fiskistofu til þess að nota svokölluð flygildi eða dróna til eftirlits með brottkasti. Þarna er náttúrlega mál sem snertir ýmis persónuverndarsjónarmið og annað. Innan nefndarinnar báðum við fyrst að sjálfsögðu um umsagnir. Síðan fengum við kynningar frá ráðuneytinu en líka frá umsagnaraðilum þar sem öll helstu vandkvæðin og hætturnar og annað við þetta frumvarp komu fram. En það sem gerðist líka í nefndinni var að í okkar umræðum um málið komu upp spurningar sem við leituðum síðan svara við, hvort sem það var frá ráðuneyti eða frá umsagnaraðilum, þar sem við báðum um frekari upplýsingar. En það sem gerðist næst var að með því að ræða málið innan nefndarinnar fengum við sem vorum í minni hluta tækifæri til að koma okkar skoðunum á framfæri. Í þessu tilfelli var framsögumaður sem hlustaði á þau rök sem við komum með og þau rök sem umsagnaraðilar komu með og vann í því að finna lausnir á því hvernig hægt væri að sætta þessar tvær mismunandi hliðar, annars vegar hvernig við tryggjum persónuvernd í þessu og hins vegar hvernig við tryggjum að dregið verði úr brottkasti. Með því að tala saman og finna út hver væru helstu atriðin sem virkilega stungu í hjá fólki að eiga við þá náðum við sem nefnd að koma með nefndarálit og breytingartillögur sem gerðu það að verkum að öll nefndin var á bak við frumvarpið. Þetta var svo sem eitt af mörgum frumvörpum sem við fjölluðum um og í öðrum frumvörpum vorum við ekki endilega sammála um alla hluti en við náðum samt að gera breytingar og lagfæringar til hins betra. Síðan kemur þetta mál hérna inn í 2. umr. Fólk er með spurningar um það af hverju þessu var breytt svona og af hverju hinu var breytt hinsegin og við gátum sem nefnd svarað fyrir það og bent á hvernig við hefðum gert hlutina. Síðan fer þetta í gegnum atkvæðagreiðslu, þriðju umferð og er gert að lögum. Það er dæmi um það hvernig þingið getur unnið vel saman, báðar hliðar.

Ég er greinilega búinn með tíma minn, virðulegi forseti, og mig langar að biðja hann um að bæta mér aftur á mælendaskrá vegna þess að mig langar að fara í það hvernig við gátum í þessu tilfelli, með þetta frumvarp, því miður ekki farið hina góðu leið sem ég nefndi.