Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það myndi kannski ekki trufla okkur mikið hversu mikla harðlínuafstöðu Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið gegn flóttafólki í gegnum árin ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þessi afstaða er í praxís stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur síðustu fimm ár. Hún birtist í svo ótal mörgum myndum, eins og t.d. því offorsi sem hefur verið sett í að keyra þetta frumvarp um útlendinga fram, frumvarp sem snýst eingöngu um að stoppa í þá leka sem Útlendingastofnun sér á kerfinu, nema að það sem þau líta á sem leka myndi ég frekar segja að væru einstaklingar, fólk sem á rétt á að njóta hér verndar, en það að kerfið hafi þarna óvart rekið sig í einhverja mannúð verður til þess að það þarf að loka fyrir hana.

Sá ráðherra sem situr í dómsmálaráðuneytinu þessa dagana hefur lagt þetta mál fram tvívegis, síðasta vor og núna í haust, en hann byrjaði að tala um það fyrr, hann byrjaði að tala um þetta frumvarp 25. febrúar á síðasta ári. Degi eftir innrás Rússa í Úkraínu sagði hæstv. ráðherra að flóttamenn sem hér væru fyrir væru að teppa aðstöðuna fyrir þeim flóttamönnum sem kynnu að koma frá Úkraínu. Svo lágt lagðist hæstv. ráðherra að hann fór að etja saman ólíkum hópum fólks á flótta. Hann fór að láta eins og fólk sem er að flýja stríðið í Sýrlandi, átök til áratuga í Afganistan, óöldina í Jemen, afleiðingar átaka m.a. Íslands í Írak, allt þetta fólk sem sækir hér um vernd, væri að þvælast fyrir og teppa húsnæði og aðstöðu fyrir aðra sem við vildum taka á móti. Það er nefnilega, forseti, ekki sama hver er. Fólki sem er að flýja stríðsátök og leitar til okkar skal haldið úti ef það kemur frá ákveðnum löndum.

Við ræddum þetta smekkleysi ráðherrans dálítið í febrúar, að hann hafi strax — áður en dynurinn af fyrstu byssukúlum var einu sinni þagnaður var Jón Gunnarsson mættur fyrir utan ráðherrabústaðinn að tala um að nú þyrfti að henda út öllu fólkinu sem hefði komið hingað í gegnum gríska verndarkerfið ef það væri að leita til okkar frá Sýrlandi, því þyrfti að henda út til að rýma fyrir Úkraínufólkinu. Ef einhvern tímann hefur verið ógeðsleg stund í stjórnmálaumræðunni þá var hún þarna á tröppum ráðherrabústaðarins 25. febrúar á síðasta ári.

En þetta er stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stefnan sem Jón Gunnarsson hefur fengið óáreittur að framfylgja. Þau tala samt alltaf eins og þau vilji gera betur. Þegar við gagnrýnum þetta útlendingafrumvarp segja stjórnarliðar gjarnan: Já, eigum við ekki bara að opna vinnumarkaðinn fyrir fólk þannig að einstaklingar utan Evrópska efnahagssvæðisins eigi auðveldara með að koma hingað og sækja um starf, fara að vinna fyrir sér, verða þannig hluti af samfélaginu? Jú, við getum gert það líka. En nú eru liðin fimm ár og ekkert bólar á þeirri löggjöf. Ekkert bólar á ívilnandi reglum fyrir fólk utan EES-svæðisins til að koma til landsins og ala sér farborða.

Það eina sem við höfum séð á spilin þar er í fyrsta lagi að meðan á Covid stóð voru opnaðar litlar gáttir, það voru nú engar flóðgáttir heldur nær því að vera lítið kýrauga, sem opnuðu leið fyrir erlenda sérfræðinga að flytjast hingað til að starfa ef viðkomandi gat sýnt fram á mánaðarlaun sem voru, ef ég man rétt, í kringum milljón. Þetta er úrræði sem svona utan frá séð leit út fyrir að vera klæðskerasniðið að einhverjum fínum Bandaríkjamönnum sem ættu auðvelt með að stunda fjarvinnu á Íslandi. Það var fullt af þannig fólki sem nýtti sér þetta, enda var bara mjög gott að losna við Covid-ástandið í Bandaríkjunum, koma til Íslands, geta labbað með Ægisíðunni, farið jafnvel í sund og unnið síðan vel launuðu vinnuna heiman frá Bandaríkjunum á þessum nýja passa sem var búinn til fyrir þennan hóp vinnandi fólks.

Fyrir hins vegar fólkið frá fátækari ríkjum, fyrir fólkið í þjónustustörfum, fyrir fólkið sem gæti verið að vinna hér í ferðaþjónustu en lenti bara í því að fæðast utan Evrópska efnahagssvæðisins, hefur ekkert verið liðkað. Þrátt fyrir ítrekað tal um það var ekki fyrr en núna upp úr áramótum, held ég, sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði loksins að það ætti að setja af stað vinnu við að móta stefnu varðandi innflytjendamál. Þetta er búið að vera brennandi umræðuefni í fimm ár. Það er ekki fyrr en á þessum tímapunkti sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur setur af stað stefnumótunarvinnu. Allan þann tíma sem þau eru búin að berja höfðinu við steininn varðandi það frumvarp sem við ræðum hér í dag, sem snýst um að koma verr fram við fólk á flótta, hafa þau lítið sem ekkert gert til að taka betur á móti fólki sem gæti flutt hingað vegna vinnu.

Síðan er áhugavert hvernig stjórnarflokkarnir, sem almennt eru á flótta frá þessu máli, sjást lítið í umræðum og tjá sig helst ekkert efnislega þegar til þess kemur, eru samt að reyna að skreyta sig með einhverjum framfaraskrefum í fjölmiðlum eða með fréttatilkynningum á vef Stjórnarráðsins eins og gerðist í síðustu eða þarsíðustu viku þar sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra gerði þjónustusamninga við nokkur félagasamtök um m.a. að sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eru með fötlun, sannarlega þarft og gott verk og eitthvað sem hefur lengi verið kallað eftir, en þá langar mig að benda virðulegum forseta á svar sem mér barst frá dómsmálaráðherra við fyrirspurn um fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd. 1. liður fyrirspurnarinnar var ósköp einfaldlega:

„Hve margir fatlaðir einstaklingar hafa sótt um alþjóðlega vernd á undanförnum fimm árum?“

Svarið: Við vitum það ekki. Með leyfi forseta:

„Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála taka ekki saman sérstaka tölfræði um þá einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi miðað við fötlun eða veikindi þeirra. Af þeim sökum er ekki mögulegt að setja fram yfirlit um umbeðnar upplýsingar.“

Þetta er eiginlega ótrúlegt, að íslenska stjórnsýslan eigi ekki þessar tölur á takteinum. Þarna er sérstaklega viðkvæmur hópur sem sækir um vernd á Íslandi og þeir geta ekki einu sinni sagt okkur hversu mörg þau eru. Fyrir utan bara hversu stjarnfræðilegt fúsk það er almennt séð þá er þetta líka á skjön við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar stendur berum orðum í 31. gr. að aðildarríki skuldbindi sig til að safna viðeigandi upplýsingum, þar á meðal hagtölum, um fatlað fólk. Hérna gæti verið að dúkka upp enn ein ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er búin að draga lappirnar með að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, vegna þess að þá yrði hún nauðbeygð til að taka betur á móti þessum hópi frekar en að æja og óa þegar fötluðu fólki er brottvísað í enga þjónustu í Grikklandi, þvert á þau réttindi sem viðkomandi hafa. Það eina sem ríkisstjórnin býður því fólki er að nú fáum við fréttir af því að ríkislögreglustjóri ætli að fjárfesta í bifreið sem geti betur rúmað fólk í hjólastól (Forseti hringir.) þannig að það sé auðveldara að sparka því úr landi. (Forseti hringir.) Það er enginn að biðja um það. (Forseti hringir.) Það er verið að biðja um mannúðina sem felst í því að veita fötluðu fólki vernd hér á landi, vernd sem t.d. gríska ríkið getur ekki veitt því.