Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að ræða þessar umsagnir sem hafa komið því að það hafa komið gríðarlega mikið af greinargóðum, fróðlegum og mikilvægum umsögnum um þetta mál frá samtökum og opinberum stofnunum og aðilum sem hafa gríðarlega góða þekkingu og eru að koma með mjög gagnlegar og mikilvægar ábendingar. Það er mikið af rauðum flöggum þarna og það sem heyrist ótrúlega hátt í mörgum umsögnum er skortur á samráði. Þá er ég ekki að tala um að það hafi verið of lítið samráð heldur var ekkert samráð, ekkert. Það eitt og sér hlýtur að þykja ófaglegt, vægt til orða tekið, þetta er alveg gríðarlega ófaglegt. Það skemmir þetta mál algerlega, enda ber þetta mál algerlega merki um að það hefur ekkert verið haft neitt samráð við þessa aðila. Ég skil ekki alveg ráðherra sem leggur fram svona mál í algeru samráðsleysi við helstu fagaðila í málaflokknum, sækir ekki dómgreind neitt. Hvernig eigum við að afgreiða þannig mál? Ég skil ekki að þingið skuli yfir höfuð gútera það að afgreiða mál sem er það illa unnið.

Hér er t.d. ein umsögn sem kemur frá embætti landlæknis. Þar er talað um 6. gr. frumvarpsins þar sem er lagt til að, með leyfi forseta:

„… að réttur til þjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd falli niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar um synjun. Vissulega eru þar taldar upp undantekningar; barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar.

Af frumvarpinu verður ráðið að þrátt fyrir undanþáguákvæði geti komið upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu. Slíkt er óásættanlegt.“ — óásættanlegt, segir embætti landlæknis — „Þeir sem undir þetta falla geta, rétt eins og aðrir og e.t.v. enn frekar en aðrir, glímt við sjúkdóma og heilsufarsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við utan téðra tímamarka. Vart þarf að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, getur haft í för með sér, ef ekki er brugðist við því sem upp kemur.

Embætti landlæknis telur að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eigi að vera undanskilin. Það að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi en í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 segir m.a. í 12. gr. um „... rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“. Fyrir utan að það er ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu getur það boðið heim hættu fyrir aðra ef t.d. einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn. Embætti landlæknis leggur því til að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta verði talin upp í undantekningum í 6. gr.“

Þetta eitt og sér er alveg svakalegt og þetta er eitt af mörgum mannréttindabrotum sem eiga sér stað í þessu frumvarpi. Læknafélag Íslands tekur undir þetta og endar sína umsögn með því að segja, með leyfi forseta:

„Að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi eins og áður segir eins og fram kemur í fjölmörgum mannréttindasamningum sem ísland hefur staðfest.“— Grundvallarmannréttindi, forseti.

En þetta virðast stjórnarliðar, hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin kæra sig lítið um. Þetta fór í gegn algerlega óbreytt í nefndavikunni áður en málið kom aftur út í 2. umr., þetta og fleiri greinar í frumvarpinu sem brjóta á mjög jaðarsettum, mjög viðkvæmum hópi fólks sem okkur ber skylda til þess einmitt að hlúa að og taka vel á móti. Þetta er vont, forseti, og bara enn ein ástæðan sem varpar ljósi á mikilvægi þess að þetta mál verði tekið til baka og unnið í samráði. Það allra minnsta (Forseti hringir.) sem ráðherra í ríkisstjórn getur gert þegar hann er að vinna þingmál (Forseti hringir.) er að eiga samráð við sérfræðinga. Við erum ekkert að biðja um einhverja stórkostlega hluti, bara að eiga samráð, sýna dómgreind og koma með fullunnin mál (Forseti hringir.) sem brjóta ekki á mannréttindum jaðarsettra hópa.