Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er óvenjuleg staða sem við stöndum frammi fyrir í þessu máli. Þar sem nokkur tími leið frá því að nefndarálit meiri hluta var afgreitt og þar til 2. umr. hófst gafst umsagnaraðilum færi á að rýna breytingartillögurnar. Það er kannski stærsti áfellisdómurinn yfir þingmönnum stjórnarmeirihlutans að lesa þá framhaldsumsögn sem Rauði krossinn skilaði inn, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Telur Rauði krossinn að með fyrirliggjandi breytingum í frumvarpinu sé litið fram hjá varnarorðum fjölmargra umsagnaraðila, sem leiða má líkum að að skili sér í ómannúðlegra en í senn óskilvirkara kerfi þegar á botninn er hvolft.“

Hér erum við ekki að tala um Jón Gunnarsson. Hér erum við að tala um Bryndísi Haraldsdóttur, Jódísi Skúladóttur, Jóhann Friðrik Friðriksson og hina stjórnarliðana í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta er dómur yfir þeirra verkum, (Forseti hringir.) þau eru að hverfa frá mannúð, í þeirra nafni er það lagt til. (Forseti hringir.) Það er kannski eðlilegt að þau vilji ekki fá þetta strax til nefndar vegna þess að verk þeirra þola kannski ekki nána skoðun.