Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Í 8. gr. núgildandi laga um útlendinga, nr. 80/2016, er fjallað um málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála. Segir þar, með leyfi forseta:

„Að jafnaði skulu þrír nefndarmenn sitja fundi kærunefndar útlendingamála til að fjalla um hvert mál sem nefndinni berst. Formaður ákvarðar hvernig nefndin er skipuð í hverju máli og skal hann gæta þess að í nefndinni eigi sæti þeir sem besta þekkingu hafa til úrlausnar málsins. Formaður eða varaformaður eiga sæti í nefndinni í öllum málum. Varaformaður hefur sömu heimildir og formaður, sbr. 2. og 3. mgr., til að úrskurða í málum. Formanni er heimilt að ákveða að nefndin starfi deildaskipt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er formanni nefndarinnar heimilt að úrskurða í þeim málum sem nefndin hefur til meðferðar og varða vegabréfsáritanir, ákvarðanir er snerta málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og frestun réttaráhrifa ákvarðana stofnunarinnar og kærunefndarinnar. Formanni er jafnframt heimilt að úrskurða einn í málum er varða umsókn um alþjóðlega vernd ef:

a. kærandi er ríkisborgari ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og

b. Útlendingastofnun hefur afgreitt málið á grundvelli b–f-liðar 1. mgr. 29. gr.“

Þótt ég sé ekki búin að lesa alla greinina þá er þetta það sem ég vil ræða hér. Það er sem sagt þannig að að jafnaði skulu þrír nefndarmenn úrskurða í málum hjá kærunefndinni, þeir geta verið fleiri þegar um viðamikil mál er að ræða og þess má geta að það var fullskipuð nefnd sem kvað upp þann úrskurð sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að veita ætti flóttafólki frá Venesúela viðbótarvernd. En það er önnur umræða sem ég mun fara út í síðar í þessari umræðu.

Í frumvarpi því sem við erum að ræða hér er í 3. gr. lögð til breyting á þessari 8. gr. sem ég var að lesa upp fyrir ykkur. 3. gr. frumvarpsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um er að ræða endurtekna umsókn skv. 35. gr. a.“

Í þessu ákvæði sem ég var að lesa upp, í núgildandi lögum, getur formaður kærunefndar útlendingamála úrskurðað einn t.d. í málum um vegabréfsáritanir, frestað réttaráhrifum og öðru slíku, úrskurðað um málsmeðferð og svona, hvað á að segja, minni háttar ákvarðanir. Nú er verið að bæta við þessa grein heimild formanns kærunefndar útlendingamála til að úrskurða einn í málum er varða alþjóðlega vernd þegar um er að ræða það sem þau kalla endurtekna umsókn og það er hugtak sem þetta frumvarp á að setja nýtt inn í lögin. Þetta væri í fínu lagi ef endurtekin umsókn væri einfaldlega endurtekin umsókn. En það er ekki svo vegna þess að í frumvarpinu, eins og ég mun ræða nánar þegar við förum yfir 7. gr. laganna, þá snýst sú breyting um það, sú nýjung í frumvarpinu að tala um endurtekna umsókn, sem er ekki neitt sérstakt vandamál hér á landi, að beiðnir um endurupptöku vegna nýrra gagna eða breyttra forsendna eru kallaðar endurteknar umsóknir. Það er þar sem gríðarleg skerðing á réttarvernd flóttafólks stendur til með þessu frumvarpi, þannig að í ofanálag við að kalla það endurtekna umsókn þegar fólk óskar eftir endurupptöku vegna nýrra forsendna eða nýrra gagna þá er formanni einum heimilt að úrskurða um það af því að það er svo lítil ákvörðun, skiptir svo litlu máli, þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í umsögn sinni gert miklar athugasemdir við tillagða málsmeðferð slíkra umsókna þar sem hún segir þröskuldinn allt of háan fyrir því að endurtekin umsókn — og mig langar að setja það innan gæsalappa þar sem við erum raunverulega að tala um beiðnir um endurupptöku — verði tekin til skoðunar. Þegar formanni er falið að skoða þær einn síns liðs og úrskurða einn síns liðs, hvaða úrræði hafa einstaklingar til þess að fá mál sitt endurskoðað, að fá óréttið leiðrétt þegar málum er svona háttað? Flóttamannastofnun var ekki einu sinni að tala um það að þarna sé verið að fella burt rétt til endurupptöku. Stofnunin hafði raunverulega í huga það sem er kallað endurteknar umsóknir. Gagnrýni hennar lýtur að ákvæðinu eins og það lítur fyrir að vera, sem er mun skárra en það er. Ég held áfram í næstu ræðu og óska eftir því við forseta að fá að vera sett aftur á mælendaskrá.