Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Pínulítið áfram um ákvæðið sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var að tala um því ég held að þetta sé alveg tvímælalaust uppáhalds ákvæðið mitt í frumvörpum eins og þau ganga og gerast því að þessi grein á sér lengri sögu. Á síðasta kjörtímabili, síðasta þingi, vorum við með frumvarp frá bæði dómsmálaráðherra og hæstv. vinnumarkaðs- — ja, hann var ekki félags- og vinnumarkaðsráðherra þá — frá félagsmálaráðherra sem snerist einmitt um þjónustu við útlendinga og ráðherra atvinnumála var ekki með þetta ákvæði um atvinnuleyfi í sínu frumvarpi heldur var það sett í frumvarp dómsmálaráðherra af stórfurðulegum ástæðum. Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir gerði þá breytingartillögu við mál vinnumarkaðsráðherrans til að færa þessa grein á réttan stað, undir réttan ráðherra, bara strax í 1. umr. Þetta fylgdi málinu allan tímann og svo þegar greidd voru atkvæði um það mál, sem komst að sjálfsögðu í gegnum þingið því það var fínasta mál að öðru leyti, þá var þessari grein hafnað, það var mjög áhugavert. Stjórnarmeirihlutinn sagði nei við þessu tímabundna atvinnuleyfi í máli vinnumarkaðsráðherrans af því það átti nú einhvern veginn betur heima í máli dómsmálaráðherra, sem eru nákvæmlega engin rök fyrir.

Uppáhalds útskýringin mín kom hérna í þessum ræðustól frá hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur sem kom og útskýrði af hverju hún gæti ekki samþykkt þessa grein í máli vinnumarkaðsráðherra, af því að breytingartillagan hefði ekki legið fyrir í þrjár umræður, sem er náttúrlega ekkert fordæmi fyrir að sé þörf á, enda erum við núna að ræða breytingartillögur í þessu máli sem lágu ekki fyrir í 1. umr. (Gripið fram í.) Einmitt, og liggja fyrir. En í þessu tilviki hafði viðkomandi breytingartillaga legið fyrir í þrjár umræður sem er mjög óalgengt, þannig að ekki er nóg með að rökin einfaldlega standist engin þingsköp eins og þau liggja fyrir okkur heldur voru þau einfaldlega röng. Núna er dómsmálaráðherra aftur með þetta ákvæði um tímabundið atvinnuleyfi sem stjórnarmeirihlutinn er búinn að hafna. Af hverju kemur þá ráðherra aftur með þetta ef það er talað um að það sé þverpólitísk sátt, við erum bara með sama meiri hluta og síðast, þau sögðu nei við þessu, af hverju ætti að segja já við þessu núna? Í alvöru, þetta eru bolabrögðin sem er verið að beita. Ef fólk hérna úti er að reyna að átta sig á því hvernig þetta virkar hérna inni á Alþingi þá er þetta kristaltært dæmi um það hvers konar bolabrögðum er beitt gagnvart minni hluta til að búa til einhvers konar samviskubit: Þið eruð nú á móti því að útlendingar fái tímabundið atvinnuleyfi, þið verðið að samþykkja allt þetta draslfrumvarp, nema þetta eina fína ákvæði, til þess að fá þetta eina fína ákvæði, og það verður að vera í máli dómsmálaráðherra en ekki vinnumarkaðsráðherra. Þetta er svo sturlað að það er ekki hægt að skálda þetta en þau búa þetta samt til. Þetta er raunveruleiki en ekki skáldskapur, sem er alveg stórkostlegt, og rökin: Þetta hefur ekki legið fyrir í þrjár umræður. Ég átta mig eiginlega ekki á því enn þá hvernig það er hægt að skálda svona rök. Ég hef séð ýmislegt í þessum ræðustóli, ýmsar réttlætingar á því að það sé ekki hægt að gera hlutina svona og hinsegin en þetta toppar allt sem ég hef heyrt. Ég bara verð að segja það.

Þannig að hvað varðar 11. atriðið á þessum lista sem ég er aðeins búinn að vera að renna í gegnum, svo ég hoppi nú í lokin, þá verð ég að segja að þetta er uppáhalds ákvæðið mitt, einmitt út af þessari sögu, einmitt út af því að við höfum reynt að kalla hérna félags- og vinnumarkaðsráðherrann inn í umræðuna til að útskýra aðeins fyrir okkur hvað hann sé eiginlega að gera í máli dómsmálaráðherra. Til hvers? Er hann ekki með þennan málaflokk? Nei, það er bara gert í samráði við þennan ráðherra og við erum með sér sérmál til þess að klára þetta sjálfsagða atriði ef bara stjórnarmeirihlutinn myndi greiða því atkvæði en ekki hafna því eins og hann gerði á síðasta þingi, sem er stórkostlegt mín vegna. En já, það eru fleiri atriði sem ég þarf að ræða þannig að ég óska eftir að mér verði bætt aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti.