153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil minna á að hér erum við að óska eftir því að forseti vísi málinu aftur til allsherjar- og menntamálanefndar líkt og honum er heimilt að gera. Það eru ekki bara við sem erum að fara fram á það. Það kom hérna upp í pontu fulltrúi meiri hlutans, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Jódís Skúladóttir, og fór fram á það sjálf mjög snemma í umræðunni, í rauninni alveg í upphafi þessarar umræðu, að málinu yrði vísað aftur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess að það þyrfti að gera breytingar á frumvarpinu. Hvers vegna er ekki búið að vísa málinu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar? Eina ástæðan getur verið sú að þau vilji klára 2. umr., þar á meðal hv. þm. Jódís Skúladóttir, til að tryggja að það sé ekkert hægt að gera til að stoppa málið eftir að búið er að gera þessar breytingartillögur. Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að orðið „og“ (Forseti hringir.) verði fellt brott á einum stað í lögunum. Ég benti á það á fundi nefndarinnar að þessi niðurfelling (Forseti hringir.) á einu orði hefði meiri afleiðingar en ég taldi meiri hlutann hafa ætlað og kom í ljós að það var rétt. Ætli það standi ekki bara til að taka þetta „og“ (Forseti hringir.) út aftur eða setja það inn, eða hvað sem það er. (Forseti hringir.) Ætli það séu ekki þessar stóru breytingar (Forseti hringir.) sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð ætlar gera á þessu frumvarpi áður en það verður samþykkt hér sem lög frá Alþingi.