Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil halda aðeins áfram þar sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir skildi við, sem eru þær breytingar sem þarf að gera á þessu frumvarpi, hversu umfangsmiklar þær eru og hversu lengi það hefur legið fyrir hversu margir gallar eru á þessu frumvarpi. Mig langar að drepa niður í helstu umsögnum sem hafa komið um þetta mál, en þær eru fjölmargar, og bara telja upp hvaða athugasemdir hafa komið fram og sjá hvað ég kemst langt á þessum stutta ræðutíma, virðulegi forseti.

Barnaheill hafa bent á að ítrekað hafi verið kallað eftir samráði en kallinu hafi ekki verið svarað og að það sé ótækt að tafir sem rekja megi til aðstandenda barns muni koma niður á rétti barns til efnismeðferðar. Ég er algjörlega sammála Barnaheillum. Þetta er algerlega ótækt.

Landlæknir segir að það sé óásættanlegt að svipta fólk rétti til heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar, að varla þurfi að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar þess sem stöðvun heilbrigðisþjónustu getur haft í för með sér ef ekki er brugðist við því sem upp kemur, að það séu grundvallarmannréttindi að njóta heilbrigðisþjónustu og að það sé ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Í umsögn frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að frestun réttaráhrifa geti gert það að verkum að Útlendingastofnun geti ekki tekið til skoðunar að endurupptaka mál þó svo að talsmenn eða aðrir bendi á virkilega slæmar kringumstæður hjá fjölskyldum vegna barnaverndarmála eða annarra kringumstæðna. Þannig festist mál í kerfinu og enginn sjáanlegur endir sé á málsmeðferð. Þess vegna þurfi að skoða vel mál sem komin séu út fyrir málsmeðferð á stjórnsýslustigi, enda geti sú biðstaða sem fjölskyldur væru settar í, sér í lagi börn, varla staðist Barnasáttmálann og önnur lög sem sett eru í þágu barna.

Frá Íslandsdeild Amnesty International kemur mjög víðtæk umsögn um flestar greinar frumvarpsins. Ég ætla nú ekki að fara í þær allar hér, en ég hvet hv. þingmenn og auðvitað almenning í landinu til þess að kynna sér þessa umsögn vegna þess að hún er mjög ítarleg og fjallar um þau víðtæku mannréttindabrot sem samþykkt þessa frumvarps felur í sér.

Frá Kvenréttindafélagi Íslands kemur fram að ekki hafi verið framkvæmt nægjanlegt jafnréttismat líkt og skylt sé samkvæmt jafnréttislögum. Frumvarpið hunsi þau ólíku áhrif sem slíkar lagabreytingar sem það felur í sér hafi á stöðu kynjanna. Í handbók Jafnréttisstofu segi að skoða þurfi hvort lögin muni koma til með að hafa áhrif á líf fólks og hvort munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum en að í þessu frumvarpi sé ekki tekið tillit til sérstakrar stöðu kvenna eða annarra jaðarhópa, t.d. þolendur mansals eða kynfæralimlestinga. Þá hafi ekki verið haft sérstakt samráð við fagaðila við vinnslu þessa frumvarps, eins og bent var á í sameiginlegri áskorun 15 félagasamtaka á Íslandi 19. maí 2022. Kvenréttindafélagið áréttar líka vanrækslu Útlendingastofnunar við að meta hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. — Ég get tekið undir að þetta er mjög algengt. — Konur séu t.d. líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi á meðan þær eru á flótta. Þær eigi einnig á hættu að deyja á meðgöngu eða af barnsburði eða í flugi ef þær fá ekki viðhlítandi heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir að barnshafandi konur eigi samkvæmt breytingum á frumvarpinu að njóta áframhaldandi heilbrigðisþjónustu sé ekkert tekið fram um önnur réttindi þeirra og þær séu því í jafn mikilli hættu og aðrar lenda á götunni. Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að frumvarpið sé dregið til baka.

Þroskahjálp kemur með umsögn þar sem þau benda á að svo virðist sem mjög þröng skilyrði séu sett fyrir því að umsækjandi teljist falla undir að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Útlendingastofnun virðist ekki skrá fötlun eða alvarleg veikindi sem sérstaka breytu við meðferð mála, hafi viðkomandi hlotið vernd í öðru ríki. Þá hefur Útlendingastofnun ítrekað vanrækt þá rannsóknarskyldu sem á henni hvílir að ganga úr skugga um hvaða þýðingu fötlun eða alvarleg veikindi hafa í þeim aðstæðum sem viðkomandi er sendur í eftir synjun á Íslandi. Þau hafa önnur ítarleg atriði í sinni umsögn sem ég næ ekki að fara yfir hér.

Við erum með umsagnir frá Læknafélaginu, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Prestar innflytjenda og flóttafólks senda inn umsögn, Rauði kross Íslands sendir inn umsögn. Þetta eru nokkur dæmi, virðulegi forseti, um þá mikilsvirtu og sérhæfðu sérfræðinga og samtök sem hafa sent inn umsögn, sem hafa gagnrýnt þetta frumvarp harkalega. Þetta lá allt saman fyrir eftir 1. umr. málsins, áður en það var sent til 2. umr, og það er ekki búið að breyta neinu, ég endurtek ekki neinu af þeim atriðum sem þessi samtök benda á að brjóti á réttindum fólks á flótta. (Forseti hringir.) Það er mikill ásetningur. Þar af leiðandi hlýt ég að komast að niðurstöðu um að brotið sé á réttindum fólks á flótta (Forseti hringir.) af hálfu þessa meiri hluta.