Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og oft er ég á svipuðum slóðum og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og hlýt auðvitað að minna á, rétt eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, að það er mjög mikilvægt að fá félags- og vinnumarkaðsráðherra inn í þessa umræðu. Við höfum endurtekið kallað eftir því og hann hefur ekki þorað að mæta okkur hérna í þingsal til þess að tala um þetta mál. Það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun miðað við það hversu marga daga þetta mál er búið að vera í gangi, hversu oft er búið að óska eftir hans þátttöku og ég man ekki betur en við höfum líka gert það í 1. umr. Það hefur bara ekki enn þá tekist þrátt fyrir að hluti af þessu máli snerti hans málefnasvið beint. Það er bara staðfest. Það er auðvitað með ólíkindum, virðulegi forseti, að ráðherrann fáist ekki til að koma hingað og ræða málið. Við hljótum auðvitað að ítreka þá beiðni enn og aftur að ráðherra komi hingað og svari fyrir sína aðkomu að þessu máli og fyrir sinn málaflokk.