131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[17:51]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2003 er til umræðu og get ég í upphafi máls míns vikið að ræðum fyrri ræðumanna um hana, bæði hvað varðar það að skýrslan er býsna skýr um starfsemi stofnunarinnar, Ríkisendurskoðunar, og rekstur hennar og í örfáum atriðum um þau viðfangsefni sem hún fæst við og á hvaða grunni.

Ég hef áður lagt áherslu á mikilvægi þess að stofnanir eins og Ríkisendurskoðun starfi á vegum þingsins. Afar mikilvægt er að eftirlitsstofnun eins og Ríkisendurskoðun hafi sjálfstæða stöðu gagnvart þinginu. Ég held að það hafi verið heillaspor 1987 þegar Ríkisendurskoðun var tekin undan fjármálaráðherra og færð undir þingið og það hafi verið á grundvelli mats á reynslu og stöðu, því ætlun Ríkisendurskoðunar er að vera trúnaðarstofnun og vinnustofnun fyrir þingið sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu, ekki síst á síðari árum þar sem framkvæmdarvaldið hefur að mínu viti stöðugt þrengt að þinginu, tekið sér æ meira vald og valdbeitingu gagnvart þinginu í mörgum málum. Nærtækast er t.d. þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður, eina stofnunin sem þingmenn og þingnefndir gátu leitað til með hlutlausum eða þinglegum hætti um atriði sem lutu að efnahagsstjórninni, fjárlagagerðinni og þess háttar. En hún var lögð niður og einu beinu möguleikar þingsins eru að fá upplýsingar hjá framkvæmdarvaldinu, fjármálaráðuneytinu, varðandi efnahagsmál og stöðu efnahagsmála við gerð fjárlaga.

Flutt hefur verið tillaga og ég hef lagt það til og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa einmitt lagt til að stofnuð verði efnahagsstofnun eða fjárlagastofa á vegum þingsins sem starfi sjálfstætt.

Hér var líka minnst á aðrar stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu til þingsályktunar um að kannað verði hvort ekki sé rétt að flytja Fjármálaeftirlitið undir þingið, m.a. til þess að tryggja sjálfstæði þess og efla það, því að sú stjórnsýslulega staða sem þar er uppi, að Fjármálaeftirlitið heyrir beint undir framkvæmdarvaldið, undir viðskiptaráðherra, en sama ráðuneyti hefur verið hvað umsvifamest í að einkavæða ríkisfyrirtæki eins og t.d. bankana. Þá er ekki verulega trúverðugt að aðaleftirlitsstofnunin, Fjármálaeftirlitið, heyri undir framkvæmdarvaldið og eigi síðan að veita því aðhald og gera athugasemdir við vinnulag þeirra í framkvæmdarvaldinu ef ástæða er til. Fyrir Alþingi liggur einmitt tillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að kannað verði hvort ekki sé hægt að flytja Fjármálaeftirlitið undir Alþingi. Við höfum umboðsmann Alþingis og starf hans hefur gefist vel.

Ég held þó að við verðum líka að vera mjög vakandi gagnvart Ríkisendurskoðun að hún sé stöðugt á verði að tryggja sjálfstæði sitt, því við höfum fundið það í umræðunni að framkvæmdarvaldið er mjög sterkt og sækir að óháðri stofnun á vegum þingsins eins og Ríkisendurskoðun. Umræðurnar frá því í sumar eru minnisstæðar um athugasemdir og skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga, að skýrsla sem Ríkisendurskoðun skilar til þingsins, til forsætisnefndar, en þá er framkvæmdarvaldið, fjármálaráðherra, farinn að rökræða í fjölmiðlum skýrslu sem ríkisendurskoðandi er að skila þinginu. Ég tel að bara í þeim orðaskiptum sem þar áttu sér stað hafi skinið í gegn löngun framkvæmdarvaldsins til þess að beita stofnun eins og Ríkisendurskoðun ákveðnum þvingunum, alla vega hafa áhrif á það hvers konar vinnu Ríkisendurskoðun skilaði í þingið. Það er því alveg ljóst að það er stöðugur þrýstingur af hálfu framkvæmdarvaldsins á störf stofnunar eins og Ríkisendurskoðunar.

Í þessu sambandi vil ég minnast á skýrslu sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bað Ríkisendurskoðun að vinna um einkavæðingu á helstu ríkisfyrirtækjum á árunum 1998–2003 og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur einmitt gert að umtalsefni.

Ég tel að sú skýrsla hafi ekki verið nægilega vel unnin. Hún er meira atburðadagatal í ferli á einkavæðingu ríkisfyrirtækja en ekki beint mat á því hvernig til hafi tekist, hvorki gagnvart þeim markmiðum sem sett voru við einkavæðinguna né verklagsreglunum. Svo er hvergi í skýrslunni um framkvæmd einkavæðingar litið á önnur sjónarmið, þau almannasjónarmið sem höfð voru í frammi í umræðum á þingi um þessi mjög svo umdeildu mál. Það er því meira farið beint í þær uppsettu verklagsreglur sem meiri hlutinn hafði sett sér og þeim fylgt í formi atburðadagatals í stað þess að leggja mat á gjörninginn sem slíkan. Þarna er t.d. um að ræða einkavæðingu bankanna þar sem vikið var gjörsamlega frá þeirri uppsettu verklagsreglu sem stjórnvöld höfðu sett sér við sölu bankanna. Vikið var frá því og við horfum til þess til viðbótar að annað eftirlit eins og Fjármálaeftirlitið, sem hefði átt að vera hinn eftirlitsaðilinn, heyrir beint undir sama ráðherra og er að framkvæma, annast og bera ábyrgð á einkavæðingunni af hálfu ríkisins eða sölu á bönkunum. Þarna er því stjórnsýslulegur veikleiki. Þó ég sé alls ekki að segja að hann hafi endilega komið niður á verkum viðkomandi aðila er þetta samt klár stjórnsýslulegur veikleiki að mínu mati að aðaleftirlitsstofnunin með sölu bankanna heyri undir sama ráðherra og fer með það. Þarna hefði því verið rík ástæða fyrir Ríkisendurskoðun að fara mjög gaumgæfilega ofan í önnur sjónarmið, almannasjónarmið, sem gætu komið til álita varðandi framkvæmd einkavæðingarinnar eins og við, m.a. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum haldið fram hvort þau markmið sem sett voru við einkavæðinguna hafi náðst. Þjónustumarkmiðum eru t.d. hvergi gerð skil, hvort þau almennu þjónustumarkmið sem samfélagið gerir til slíkra stofnana hafi náðst o.s.frv.

Ég vil því árétta stöðuga hvatningu til Ríkisendurskoðunar um að standa vörð um sjálfstæði sitt gegn eðlilegri ásælni framkvæmdarvaldsins — eðlilegri og líka óeðlilegri — þegar það beitir áhrifum sínum gagnvart eftirlitsstofnun eins og Ríkisendurskoðun.

Þegar hér er til dæmis verið að meta greinargerð um útboð á Landsbankanum þá nálgast menn þetta að mínu viti eins og þegar köttur fer kringum heitan graut og meira haldið sig við atburðadagatalið og sagt, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur skilning á þeim sjónarmiðum, sem einkum réðu því að framkvæmdanefndin beitti sér ekki fyrir því að bjóðendum væri boðið upp á kostgæfnisathugun ...“

Þegar Ríkisendurskoðun notar orðið skilning eða meira matskennd orð sem eru nú fremur notuð í persónulegu tali manna þá er þar að mínu viti nokkur veikleiki á ferð. (HBl: ... hvergi hægt að skilja það sem sagt er ... í persónulegu tali manna.)

Já, þetta er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. Ég er ekkert að agnúast út í það að menn setji sig persónulega inn í málin, alls ekki. Hins vegar er nauðsynlegt í máli eins og þessu um einkavæðingu ríkisfyrirtækja að menn hafi skilning á því hvers vegna vikið er frá þeim reglum sem þeir höfðu áður sett sér, eins og í þessu dæmi. Það er um að gera að gleyma ekki skilningnum. Kannski hefði ríkisendurskoðandi átt að nota þessi orð víðar í skýrslunni og spyrja einmitt um skilninginn á bak við það af hverju keyrt var svona hart í þessa einkavæðingu (Gripið fram í: Og misskilning.) og misskilning.

Ég vil líka nefna hér það litla sem kemur hér fram um einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka. Mér finnst ríkisendurskoðandi skauta býsna létt yfir það mál sem enn þá, að ég held, stendur fyrir dómstólum, sá gjörningur. Síðast þegar ég vissi var það mál ekki útkljáð þar enn.

Ég vil því bara taka undir þau orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar að Ríkisendurskoðun beri að taka málið á víðari grunni, horfa líka á málið út frá almannaheill. Ríkisendurskoðun er líka starfsaðili stjórnarandstöðunnar. Ríkisendurskoðun er eftirlitsaðili og starfar fyrir allt þingið en vinnur ekki bara út frá forsendum meiri hlutans og þeirri ákvörðun sem tekin var, eins og skín allt of mikið í gegn í þessari skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskuðu eftir að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka úttekt á.

Ég læt þetta að öðru leyti útrætt. Þó vil ég í lokin minnast á meðferð þessara skýrslna. Við höfum áður rætt á þinginu að þessar skýrslur sem Ríkisendurskoðun vinnur fyrir þingið, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni einstakra þingnefnda, þingflokka eða einstaklinga, fái formlegri meðferð, að forsætisnefnd taki þær meira til formlegrar meðferðar og þær séu afgreiddar formlega af hálfu þingsins, að einstakar nefndir taki þær til meðferðar. Ég þekki t.d. vinnuna í fjárlaganefnd. Þar erum við búin að vera með margs konar heitstrengingar um að gefin verði út einhvers konar bókun eða fundargerð eða afgreiðsla á því að nefndin hafi farið í gegnum þær skýrslur sem lúta að störfum og verkefnum sem fjárlaganefnd hefur afskipti af. En af því hefur ekki orðið. Þær liggja því almennt óafgreiddar eins og hver annar póstur sem ekki hefur verið svarað hjá mörgum þessum þingnefndum. Ég vil hvetja forseta þingsins og forsætisnefnd til þess að beita þingnefndir og aðra þá sem um skýrsluna ættu að fjalla og skila áliti sínu, ef svo ber undir, meiri aga.

Einnig tel ég að Ríkisendurskoðun eigi að skila skýrslunum til þingsins, til forsætisnefndar og að t.d. andsvör framkvæmdarvaldsins fari jafnvel í gegnum forsætisnefnd þingsins, að forsætisnefnd þingsins ákveði með hvaða hætti þær fari til umræðu en ekki að einstök ráðuneyti eða stofnanir fari í fjölmiðla og gefi umsögn um einstök atriði í þessum skýrslum, meira að segja áður en þinginu hefur verið gerð grein fyrir þeim.