143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ummæli þingmanns í umræðum um störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður að hafa valdið þessum óróa með veru minni hér í salnum. Almennt geri ég ekki athugasemdir við það að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nýti málfrelsi sitt alveg til hins ýtrasta og sem andstæðingur hans í stjórnmálum hallast ég heldur að því að það sé til bóta að hann tali sem mest.

En ef hv. þingmaður tekur upp sjálfstæðar ávirðingar á annan þingmann var það gömul regla hér að menn gerðu það ekki ef sá hinn sami hafði talað sig dauðan, eins og það var kallað, ef hann hafði ekki tækifæri til að svara í þeirri hinni sömu umræðu. Það hafði ég vissulega ekki í þessu tilviki þar sem liðurinn um störf þingsins var fylltur.

Sem sagt, herra forseti, svo að það misskiljist ekki, ég hef engan áhuga á því að skerða málfrelsi hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þau eru mörg vorverkin og misskemmtileg og eitt af þeim er jú að tæma rotþrærnar.