153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ekkert að því að vera hérna á löngum fundum, getur oft verið skemmtilegt, en stundum er það óttalegur óþarfi. Eins og hér hefur verið bent á þá hefur hluti stjórnarliða talað bæði hér í pontu og í fjölmiðlum um það að bregðast þurfi við athugasemdum, t.d. skýrslu Rauða krossins um stöðu fólksins sem er innlyksa í landinu vegna þess að það er búið að synja því um umsókn um alþjóðlega vernd en það er ekki hægt að vísa því til neins annars lands. Það fólk lifir í mjög óþægilegu limbói. Við þessu vilja sumir stjórnarliðar í orði kveðnu bregðast með nokkrum breytingum á milli 2. og 3. umr. en til þess að við getum átt efnislega umræðu hér í 2. umr. þá hljótum við að eiga heimtingu á að sjá á spilin, sjá hvað felst í þessum tillögum. Ef þær eru þá yfir höfuð eitthvað sem stjórnarliðar geta náð saman um er eðlilegt að mæta með þær í 2. umr. þannig að við getum rætt þær, (Forseti hringir.) frekar en að ýta þessu á undan sér og koma síðan kannski ekki með neitt í 3. umr. Sýnið okkur að þið meinið eitthvað með þessu. (Forseti hringir.) Takið málið til nefndar nú þegar og mætið svo með breytingartillögu sem við getum rætt.