153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:15]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þessa tillögu. Í umræðunum hér sem hafa verið að fara fram og í mínum ræðum hef ég ítrekað kallað eftir því að við getum átt samtal hérna um þetta frumvarp. Við höfum verið að biðja um það að þingmenn meiri hlutans útskýri fyrir okkur hvers vegna þau telji þetta í lagi sem við erum að lýsa hérna. Það að lengja þingfund til þess að ræða þetta mál þýðir það að við erum að fara að ræða þetta eftir klukkan átta í kvöld, líklega fram á nótt. Annars vegar þýðir það að mér finnst líklegt að margir þingmenn muni annaðhvort ekki hafa tök eða vilja til að taka þátt í þeirri umræðu. Mér þykir það mjög miður. Markmið mitt með þeirri umræðu sem á sér stað hér er að ræða frumvarpið vegna þess að ég mun ekki sofa rótt yfir því að þessi lög verði samþykkt nema ég viti með fullri vissu að fólk geri sér grein fyrir því hvað það er að samþykkja því að ég efast í alvörunni um það.

Mig langar til þess að eiga þetta samtal. Ég óska þess að við getum rætt þetta á eðlilegum tíma þegar við mætum öll hérna og erum öll hérna. Ég tel enga þörf á að lengja þingfund til þess að ræða þetta. (Forseti hringir.) Þar fyrir utan tek ég undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni og fleirum hér um að það liggur fyrir að við erum ekki að ræða klárað mál. Við erum ekki að ræða tilbúið mál. Þingmenn meiri hlutans hafa tilkynnt að þau vilji gera breytingar á frumvarpinu. Getum við klárað þetta mál áður en við förum í þessa umræðu?