Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Það skín í gegn að hv. þingmaður hefur góðan skilning og þekkingu á þessu sviði. Það fer heldur ekkert á milli mála að hv. þingmaður hefur fylgt sannfæringu sinni þegar að þessu kemur. Það sást best á því að hv. þingmaður tók erfiða ákvörðun á síðasta kjörtímabili um að fylgja ekki þessari stefnu, eða stefnu þess flokks sem hún var þá í. Ég get alveg ímyndað mér að það hafi verið virkilega erfitt að taka þá ákvörðun en við þingmenn eigum að fylgja sannfæringu okkar.

Við höfum verið að ræða það í umræðum um þetta mál að þingmenn séu hér að fylgja skipunum að ofan um að þetta frumvarp skuli fara í gegn óbreytt, að hvort sem bent er á stjórnarskrárbrot, brot á mannréttindasáttmálum eða eitthvað annað þá skuli þau samþykkja þetta. Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Heldur hv. þingmaður að það sé ekki erfitt fyrir þingmenn að fylgja ekki sannfæringu sinni, brjóta drengskapareið sinn við stjórnarskrána og hreinlega mæta hér á þingið og samþykkja ólög?