Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Það er ýmislegt sláandi í þessu frumvarpi og mig grunar að ákvæðið sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að fara yfir hérna sé nokkuð sem hefur ekki einu sinni enn náð flugi í umræðunni. Ég er reglulega spurð hvað sé versta ákveðið í þessu frumvarpi, hvort það sé ekki hægt að kippa því út og laga þetta eitthvað aðeins til. En það er ekki hægt vegna þess að ef við ættum að gera það þá stæði ekkert eftir nema 21. gr. Jú, kannski ein reglugerðarheimild eða svo. Það er nefnilega þannig að jafnvel þau ákvæði sem fela í sér breytingar á einhverjum ákvæðum laganna sem mætti jafnvel gera breytingar á, þær breytingartillögur sem koma fram í þessu frumvarpi, ganga í öfuga átt við það sem myndi gera kerfið skilvirkara og mannúðlegra og eðlilegra og straumlínulagaðra og allt það.

Annað sem gerir þetta frumvarp svo ótrúlega, hvað eigum við að segja, bæði gagnslaust til þess að taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, og skaðlegt um leið er að það byggir á forsendum sem eru ekki í tengslum við raunveruleikann. Ákvæðið sem ég er að fjalla um hér er kannski einna skýrasta dæmið um það, þó að reyndar séu það meira og minna öll ákvæði frumvarpsins. Ég er að ræða hérna um 6. gr. sem fjallar um þjónustusviptinguna 30 dögum eftir lokaniðurstöðu — lokasynjun á stjórnsýslustigi. Ég mismæli mig alltaf á sama hátt í hverri ræðu, ég lofa að ég er ekki að lesa af blaði. Þetta ákvæði byggir á þeirri kolröngu forsendu að fólk geti bara farið heim til sín en vilji ekki fara af því að það sé svo fín þjónusta hérna og það muni fara ef það fær ekki lengur þessa þjónustu. Sömuleiðis byggir það á þeirri forsendu að það sé svo rosalega dýrt að halda fólki uppi með þessum hætti og það sé einhvern veginn ódýrara að halda því uppi í algerri neyð á götunni. En það er að sjálfsögðu ekki svo, eins og við vitum.

Ég ætla aðeins að fara yfir greinargerðina með frumvarpinu þar sem lýst er afstöðu frumvarpshöfunda til þess hvert markmið þessarar greinar er, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í skýringum við 1. gr. frumvarpsins hefur aðgreiningu laganna á hugtökunum umsækjandi um alþjóðlega vernd annars vegar og útlendingur hins vegar ekki verið nægilega fylgt í framkvæmd. Hefur það einna helst birst við beitingu 33. gr. laganna sem kveður á um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Hafa þannig útlendingar, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og fengið endanlega synjun í máli sínu á stjórnsýslustigi, haldið áfram að njóta fullrar þjónustu sem umsækjendur þar til þeir hafa farið af landi brott. Þar sem ekki kemur fram í lögunum hvenær umrædd þjónusta fellur að jafnaði niður hafa sumir útlendingar í þessari stöðu notið óskertrar þjónustu í jafnvel nokkur ár vegna erfiðleika stjórnvalda við framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, m.a. sökum skorts á samstarfi þar um af hálfu útlendingsins.“

Ég ætla aðeins að gera hlé hér. Þarna er markmiðið nokkuð skýrt; að svipta fólk þjónustu til þess að hvetja það til að fara af landi brott og þetta sé nú bara hræðilega ósanngjarnt. Þarna er því ekki gefinn gaumur í hversu slæmum aðstæðum og slæmri stöðu þessir einstaklingar eru. Ég mun fara nánar yfir það í máli mínu á eftir í umfjöllun um a-lið 8. gr. frumvarpsins þar sem stefnt er að því að fjölga fólki í þeirri stöðu svo um munar með heimildum til Útlendingastofnunar til að vísa fólki þangað sem stofnuninni dettur í hug, hvort sem hún getur flutt fólk þangað nauðungarflutningum eða ekki. En ég mun fara í það síðar í þessari umræðu.

Ég ætla aðeins að halda áfram með greinargerðina í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eðli málsins samkvæmt eiga ekki að öllu leyti sömu sjónarmið við um útlendinga í þessari stöðu og þá sem eru að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu um alþjóðlega vernd eða fara sjálfviljugir af landi brott að fenginni endanlegri synjun. Má það til að mynda sjá af gildandi 4. mgr. 104. gr. laganna sem áréttar að útlendingur skuli njóta ákveðinna grundvallarréttinda meðan á fresti hans til sjálfviljugrar heimfarar stendur. Með ákvæði þessu eru því lagðar til breytingar á 33. gr. laganna til að skýra frekar“ — vinsælt orðalag í greinargerðinni — „þau réttindi sem útlendingum, sem lögum samkvæmt ber að fara af landi brott, stendur til boða. Eru breytingarnar m.a. í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.“ (Forseti hringir.)

Þarna kom ég með svokallaðan „cliffhanger“ af því að um þetta atriði (Forseti hringir.) ætla ég að fjalla í næstu ræðu minni. Ég bið forseta að bæta mér aftur á mælendaskrá.

(Forseti (DME): Forseti minnir hv. þingmenn á að þingmálið er íslenska.)