Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Síðasta atriðið hérna, tólfta atriðið sem var í þessu stutta útvarpsviðtali við dómsmálaráðherra sem má flokka sem rangfærslu var að frumvarp ráðherra verði til þess að draga úr komu flóttafólks hingað. Þetta er flóknara og það er ekkert hægt að fullyrða um þetta í rauninni á einn eða annan veg því að íslenskum lögum er í rauninni beitt að miklu leyti með sama hætti og í öðrum Evrópuríkjum þó að það megi kannski rökstyðja að íslensku lögin bjóði upp á að það sé hægt að túlka þau á rýmri hátt. Fólkið leitar hingað af því að það var í neyð, af mjög mismunandi ástæðum en ekki af því að reglurnar séu í rauninni svo frábærar eða ólíkar öðrum ríkjum. Það er nægilega flókið fyrir Íslendinga að átta sig á því hvernig kerfið virkar, hvað þá fyrir fólk sem kann ekki íslensku.

T.d. var hætt að senda flóttafólk til Ungverjalands árið 2018 út af niðurstöðum kærunefndar útlendingamála vegna aðstæðna þar í landi. Það breytti í raun engu um stöðu þeirra sem voru að koma eða fjölda þeirra sem voru að koma frá Ungverjalandi hingað. Sumarið 2020 kom lítill hópur, þetta er rétt í byrjun Covid meira að segja, sem var sem sagt með stöðu flóttamanna í Ungverjalandi og virðist hafa haft vitneskju um að fólk væri ekki sent héðan til Ungverjalands, bara lítill hópur, og upp til hópa tiltölulega fært og menntað fólk meira að segja. Þá tók Útlendingastofnun sig til og breytti þeirri framkvæmd, kannski með einhverri hræðslu um að það myndi vinda upp á sig á einhvern hátt. Þaðan kemur kannski þessi fullyrðing sem byggist á ákveðinni hræðslu um að það myndi einhvern veginn vinda upp á sig og að allir flóttamenn sem eru í Ungverjalandi eða Grikklandi eða eitthvað svoleiðis myndu bara flykkjast til Íslands. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé raunin og hefur aldrei verið. En það má alveg skilja hvaðan sú hræðsla kemur. Hræðsla er mjög oft órökrétt. Þetta er alla vega ekki fullyrðing sem hægt er að segja að sé sönn. Það er heldur ekki hægt að segja að hún sé ósönn, hún er bara ekki rétt. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé satt.

Þetta eru, bara úr einu stuttu viðtali, allar — við glímum við þetta vandamál hérna í ræðustól að það eru dæmi um það í fleiri viðtölum við ráðherra og fleiri fréttum að ráðherra hefur ítrekað haldið fram einhverju sem stenst ekki nánari skoðun. Þrátt fyrir að það sé búið að reyna að leiðrétta eða útskýra af hverju það er ekki rétt að segja hlutina á þennan hátt, að það sé ónákvæmt á einhvern veg og sjónarhorn sem stenst kannski bara fyrir mjög þröngan hóp umsækjenda, sem sé alls ekki hægt að alhæfa út frá, þá heldur hann samt áfram með svona alhæfingar. Það er ekkert rosalega hjálplegt fyrir umræðuna. Við verðum nefnilega vera dálítið passasamari í umræðunni um þennan hóp því að þetta er vissulega virkilega viðkvæmur hópur fólks.

Það eru mörg dæmi um það í gegnum söguna að slæm meðferð eða slæmt umtal um hóp í þessari stöðu geti búið til ansi hættulegt ástand, ansi varasamt ástand. Við erum með dæmi frá Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni þar sem var ekki farið neitt rosalega vel með þá sem voru að flýja stríðið. Á mjög ómálefnalegum forsendum var reynt að henda fólki fram og til baka. Í kjölfarið á því var gerður flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna árið 1951 sem var ákveðin viðurkenning á því klúðri sem lönd sem stóðu svona nokkuð örugglega utan stríðssvæðisins urðu sek um. Jú, við erum við með ákveðinn smærri heim núna, (Forseti hringir.) það eru meiri ferðalög og fleira flóttafólk og þetta er alveg vandamál, við verðum að viðurkenna það líka. En þetta er ekki lausnin þar.

Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.