Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég fékk smá hirtingu hérna áðan fyrir að tala útlensku í pontu þegar ég talaði um „cliffhanger“. Ég veit ekki hvert íslenska orðið er. Forseti getur kannski hjálpað mér, klettahengja, ég veit ekki hvað það gæti verið. (Gripið fram í: Spennandi endir.) Spennandi endir, ég kom með spennandi endi á ræðu minni áðan þar sem ég var að lesa upp úr greinargerð um 6. gr. frumvarpsins um þjónustusviptingu að 30 dögum liðnum eftir neikvæða lokaniðurstöðu. Spennandi endirinn var svohljóðandi, með leyfi forseta: „Eru breytingarnar m.a. í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.“

Allsherjar- og menntamálanefnd fór í smá vettvangsferð til Noregs og Danmerkur til þess að kanna hvernig kaupin gerast þar á eyrinni. Því kom það mér svolítið á óvart þegar þessu var í kjölfarið haldið fram af hálfu meiri hlutans, þar á meðal af hálfu hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndísar Haraldsdóttur, þar sem það er ekki rétt að þessi tillaga í frumvarpinu sé í samræmi við það sem tíðkast í löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum. En það sem ég var ekki alveg viss hvernig þetta væri ákvað ég að kanna málið og ætla aðeins að lýsa því hvernig þessi mál eru á Norðurlöndunum.

Það er sem sagt lagt til í þessu frumvarpi okkar að öll þjónusta verði felld niður, þ.e. húsnæði, framfærsla og heilbrigðisþjónustan sem fólk á rétt á samkvæmt útlendingalögum. Í Danmörku eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á framfærslu, fæði, húsnæði, fatnaði og vasapeningum sem eru þá háðir því að umsækjandinn uppfylli þessar skyldur, og mun ég fara aðeins í útfærsluna hérna á eftir. Einnig fá umsækjendur nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, svipað og hér, kennslu og virkniþjálfun. Hér á landi fá umsækjendur um alþjóðlega vernd líka í sumum tilfellum möguleika á að læra íslensku eða ensku, það fer eitthvað eftir því hvar þeir eru í þjónustu og annað slíkt. Virkniþjálfun veit ég ekki til þess að sé veitt hér á landi. Í Danmörku eru fimm gerðir búða. Þau sem eru nýkomin dvelja í svokölluðum móttökubúðum meðan tekin er ákvörðun um það hvort umsókn þeirra fái efnislega meðferð. Eftir að fyrir liggur hvort umsóknin verði tekin til meðferðar flyst umsækjandinn í svokallaðar dvalarbúðir og er þar uns ljóst er hver niðurstaða um umsóknina er. Fari það svo að umsókn sé hafnað flyst fólk í brottfararbúðir. Sérstakrar umönnunarbúðir taka við fólki með sérþarfir og barnabúðir eru aðeins ætlaðar fylgdarlausum börnum. Kostnaður við uppihald umsækjenda um alþjóðlega vernd sem ekki á maka með fasta búsetu í Danmörku er greiddur af útlendingastofnun Danmerkur, þ.e. af skattfé. Eigi umsækjandi maka sem hefur fasta búsetu í Danmörku hvílir framfærsluskyldan á makanum og sömuleiðis ber umsækjanda að standa straum af kostnaði við uppihald ef hann er nægilega vel efnum búinn. Eins og frægt er orðið hafa Danir nú gengið svo langt að láta sér detta það í hug að hirða af fólki skartgripina til að fjármagna framfærslu þeirra þannig að það er ekki eins og að með því að líta til Danmerkur séum við endilega að líta upp á við í mannréttindavernd. En þeim mun betra verður dæmið, þeim mun betra er einmitt að velta fyrir sér hvernig Danir gera þetta vegna þess að við ætlum að gera hluti sem þeim dettur ekki einu sinni í hug að gera, sem er að svipta fólk þjónustu með öllu. Framfærsla Útlendingastofnunar Danmerkur fyrir umsækjanda um alþjóðlega vernd felur í sér kostnað vegna fatnaðar, hreinlætisvara og fæðis, ef það er ekki mötuneyti þar sem hann dvelur getur hann fengið mat án endurgjalds, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og jafnvel nauðsynlega félagsþjónustu, kennslu fyrir börn, virkniþjálfun ef umsækjandi er á fullorðinsaldri, búsetu og ferðir sem eru farnar vegna samtala við stjórnvöld og vegna heilbrigðisþjónustu og þess háttar.

Þá er ræðutíminn búinn í bili. Ég held áfram með spennandi endinn og tek upp þráðinn í næstu ræðu. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.