Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er ekki endalaust hægt að raupa um fundarstjórn forseta, sérstaklega ekki þegar frumvarp til laga um útlendinga bíður hér efnislegrar umræðu og af nógu er að taka. Mig langar samt aðeins kannski að gera hlé á beinu efnislegu athugasemdunum sem ég hef verið að einblína á í síðustu ræðum. Mig langar aðeins að beina kastljósinu að grasrótarfólkinu, aðgerðasinnum sem hafa undanfarin misseri vakið almenning til umhugsunar, vakið upp hverja bylgjuna á fætur annarri þegar réttlætiskennd fólks hefur misboðið við brottvísanir á fólki á flótta.

Mig langar að nefna nýjustu birtingarmynd þessa sem er hinn nýsprottna grasrótarhreyfing Fellum frumvarpið. Fyrir utan að hafa sinnt ýmiss konar aktífisma á samfélagsmiðlum og staðið fyrir greinaskrifum og eitthvað verið að setja sig í samband við okkur þingmenn til að hvetja okkur til góðra verka, og kannski aðallega að letja fólk frá verri verkunum, þá sendu þau inn umsögn, áskorun á dómsmálaráðuneytið, forseta Alþingis og ríkisstjórnina alla um að draga frumvarpið til baka og vinna það upp á nýtt í samstarfi við fagaðila þar sem virðing fyrir jafnrétti og mannréttindum er höfð í hávegum.

Þetta kristallar kannski vandann sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur nokkrum sinnum nefnt í ræðum: Það er eiginlega ekkert hægt að vinna á grunni þess frumvarps sem er hér fyrir þinginu. Til þess er það samið af of mikilli óvirðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti. Það þarf að átta sig á því að það hús sem þetta frumvarp er er bara gegnsósa af veggjatítlum. Það þarf bara að kveikja í því og byggja nýtt.

Grasrótarhreyfingin Fellum frumvarpið, fyrir utan að styðja og taka undir umsagnir Íslandsdeildar Amnesty international, Kvenréttindafélags Íslands, Solaris, Rauða krossins, UNICEF, UN Women og Þroskahjálpar, bendir á að þau hafi sem ungmenni í landinu, með leyfi forseta, „verulegar áhyggjur af skelfilegri þróun núverandi ríkisstjórnar í málefnum útlendinga.“ Að baki þessum samtökum stendur fólk sem er flest nýlega komið með kosningarrétt, þetta er fólk sem hefur náð þeim stað í lífinu að fara að fylgjast með stjórnmálum. Sá tími og valdatíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er mögulega sá sami. Allan þann tíma hefur þetta fólk, með sína sterku réttlætiskennd, séð neikvæða þróun, séð þróun í ranga átt í málefnum útlendinga.

Svo bara líður tíminn svona hratt. Ég ætlaði að fara aðeins út í atriðin sem þau nefna en í þessari ræðu vil ég kannski bara rifja upp að á bak við þessa grasrótarhreyfingu, Fellum frumvarpið, standa ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty, ungmennaráð Þroskahjálpar, ungmennaráð Barnaheilla, ungmennaráð UN Women, Ungir umhverfissinnar, Röskva, háskólahreyfing Amnesty, Femínistafélag Háskóla Íslands, Q — félag hinsegin stúdenta, Ungir sósíalistar, Ungt jafnaðarfólk, Ungir Píratar, Uppreisn, og fyrir forseta geymdi ég rúsínuna í pylsuendanum vegna þess að Ung Vinstri græn standa að þessu félagi líka. Mér finnst svo erfitt að fylgjast með ungmennum mæta síðan bara lokuðum dyrum þegar þau knýja á þær hjá ráðafólki (Forseti hringir.) vegna þess að það sem ég hef séð frá stjórnarliðum gagnvart þessu og öðru sem hefur borist inn í málið er tómlæti, ekkert annað, þögnin, (Forseti hringir.) alveg eins og þegar við biðjum um útskýringar á hvaða breytingartillagna er að vænta. Það er ekkert að frétta.