Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:04]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að fara alveg yfir umfjöllun mína um 6. gr. hér áðan. Eins og ég kom inn á er þar verið að skerða réttindi fólks til grunnþjónustu, heilbrigðisþjónustu, húsnæðis o.fl.; ég þarf ekkert að tíunda það sem ég sagði áðan. Í fyrsta lagi skulum við hafa í huga að hér er verið að svipta fólk þjónustu sem er í einstaklega viðkvæmri stöðu og hefur leitað hingað í neyð, algjörri neyð, það yfirgefur enginn heimaland sitt og fjölskyldu og sitt samfélag nema í leit að betra lífi. Hér er sem sagt verið að taka þjónustu af fólki sem er í einstaklega viðkvæmri stöðu og mjög fáir í þessari stöðu eru með einhver tengsl við einhvern á Íslandi. Hvað gerist þá þegar þessari heimild hefur verið beitt? Jú, fólk leitar mögulega til Rauða krossins eða í einhver skýli, bara í þá þjónustu sem er í boði fyrir fólk sem hefur ekkert á milli handanna. Það skapar auðvitað meira álag á kerfin okkar á Íslandi og ég held að þegar dómsmálaráðuneytið var að semja frumvarpið hafi ekki verið hugsað nógu langt til framtíðar, þ.e. hvaða áhrif þessi heimild myndi hafa á kerfið í heild sinni. Þetta leiðir líka til þess að þetta fólk verður berskjaldað fyrir ofbeldi sem mun t.d. skapa meira álag á heilbrigðiskerfið. Þetta er líka ómannúðleg meðferð á fólki sem getur leitt til þess að íslensk stjórnvöld gerist sek um mannréttindabrot, eins og í sviðsmyndinni sem ég málaði upp áðan; að fara mögulega með mál þar sem þessum ákvæðum er beitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Það væri áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum. Til að klára þetta vil ég segja að ég held að það þurfi að endurskoða 6. gr. frumvarpsins og hvet ég allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða það þegar málið fer aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.

Næst vil ég segja að fjölmargir umsagnaraðilar gerðu athugasemd við 7. gr., sem er mjög ámælisverð grein. Þar er kveðið á um sérstaka málsmeðferð þegar kemur að svokölluðum endurteknum umsóknum. Orðalagið eins og það er í þessu frumvarpi, sem lagt var fram á núverandi þingi, leiðir til þess að möguleikar fólks verða skertir enn frekar á því að fá umsókn sína um alþjóðlega vernd tekna til efnismeðferðar. Í ákvæðinu er lagt til að auka skilyrðin fyrir því að endurtekinni umsókn verði ekki vísað frá, eins og ef henni fylgja ekki gögn og upplýsingar sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn, sem er rosalega skrýtið; þetta er rosalega skrýtin heimild. Þetta er aðeins gert í einu skyni og það er til þess að skerða réttindi fólks og sjá til þess að fleiri fái ekki vernd en við höfum verið að taka við og sjá til þess að þrengja möguleika fólks sem hingað leitar á að fá vernd. Þetta er líka rosalega auðveld leið fyrir stjórnvöld til að hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að þurfa að rökstyðja ákvörðun sína, synjun sína, sérstaklega og án þess að þurfa að skoða hverja umsókn fyrir sig. Ég kann eiginlega ekki að lýsa þessu ákvæði en þetta er bersýnilega ómálefnalegt ákvæði. Ég geri mér grein fyrir því hver rökstuðningurinn á bak við þetta ákvæði er en eins og ég lít á það er hvorki tilefni né nauðsyn til þess að setja ákvæðið inn í frumvarpið og lögfesta það. Þetta veitir einhvers konar heimild sem enginn getur dregið í efa og er eiginlega geðþóttaheimild til þess að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem er auðvitað rosalega alvarlegt.