Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það líður á kvöldið en vonandi eru samt enn örfáir þingmenn vakandi. Við erum alla vega vakandi hér inni og höfum verið að fara í hinar ýmsu hliðar þessa frumvarps. Ég hef verið að reyna að koma á framfæri ábendingum um það hvernig bent hefur verið á að frumvarpið standist ekki alþjóðlega samninga og sáttmála sem Ísland hefur gert og lögfest. Það er sorglegt að hér skuli ekki vera neinn þingmaður úr stjórnarflokkunum til að skýra út fyrir okkur hvers vegna þær greinar sem ég er að lesa upp eru ekki brotnar.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði einmitt í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að það þyrfti bara að skýra þessa hluti aðeins betur. En hv. þingmaður virðist ekki vilja skýra hlutina úti í þingsal, kannski vegna þess að það eru engar skýringar á því að þetta frumvarp eigi að brjóta í bága við alþjóðasáttmála og lög og stjórnarskrá.

Frú forseti. Ég fjallaði síðast um 13. gr. og réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Það hefur einmitt verið bent vel á það. En það er einnig mikilvægt að hafa í huga 14. gr. en hún fjallar um bann við mismunun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.“

Frú forseti. Þessi grein segir ekki bara að ég sem Pírati og frú forseti sem Sjálfstæðiskona — það má ekki gera greinarmun á milli okkar vegna stjórnmálaskoðana. En það stendur nefnilega líka að ekki megi gera greinarmun vegna þjóðernis. Það þýðir að hælisleitendur sem hingað koma og sækja hér um alþjóðlega vernd eigi að njóta verndar og/eða njóta sömu réttinda og frelsis og lýst er í mannréttindasáttmálanum, rétt eins og Íslendingar sem búa hér og hafa hér ríkisfang. Já, við vorum nú einu sinni flóttamenn sjálf, forfeður okkar. Kannski er ágætt að við munum eftir því að þessi réttindi eru ekki bara fyrir hælisleitendurna heldur einnig fyrir okkur sjálf.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og óska eftir að fá að komast aftur á mælendaskrá. En ég ætla reyndar að gleðja virðulegan forseta með því að ég ætla ekki að fara í allt um það hvernig Mannréttindadómstóllinn er skipaður, það koma ansi margar greinar um slíkt.