153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú stendur til að lengja þingfund til að hægt sé að ræða útlendingamálið lengur í dag en þingsköp gera ráð fyrir að við gerum. Við í Pírötum höfum lagt til einfalda lausn sem væri öllum hagaðilum til hagsbóta og það er að kalla málið aftur inn í nefnd til þess að stjórnarliðar geti gert þær breytingar sem þeir hafa boðað að þeir ætli að gera á frumvarpinu. Við getum þá rætt þær breytingar í 2. umr. þar sem þær eiga heima en ekki í 3. umr. þar sem ræðutími er afar takmarkaður. Þar af leiðandi vil ég aftur fara þess á leit við forseta að hann kalli málið aftur inn til nefndar til umfjöllunar. Og sömuleiðis, vegna þess að ég sé hérna hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, vil ég endurtaka ósk okkar sem ég veit að hefur verið komið áleiðis til hans, verði ekki orðið að ósk okkar um að kalla málið aftur til nefndar, að hann verði viðstaddur umræðuna hér til að ræða réttindi barna á flótta í þessari umræðu. Það er gott að sjá hæstv. ráðherra hér í þingsal.