153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Umfjöllun um þetta mál í nefndavikunni endaði nokkurn veginn á þeim orðum þegar ég spurði: Ætlið þið síðan ekkert að bregðast við þessum ábendingum? Þá vorum við búin að fá gesti til okkar, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem skildi t.d. ekki eina greinina, hún var bara óskiljanleg. Svarið var einfaldlega nei. Nú er verið að segja: Heyrðu, það á að bregðast við þessu einhvern veginn á milli 2. og 3. umr. En við treystum ykkur ekki til að gera það. Ráðherra málaflokksins er búinn að segja: Nei, það verða engar breytingar, kannski bara einhverjar stafsetningarbreytingar og málfarsbreytingar, eitthvað svoleiðis. Hluti stjórnarliða segir að það þurfi að gera breytingartillögur. Við treystum ykkur ekki til þess að taka þetta mál eftir 2. umr. og gera nægilega góðar breytingar á málinu til þess að það uppfylli mannréttindasjónarmið. Það er ekki flóknara en það. Þess vegna er enginn munur á því að taka málið inn í nefnd núna eða á milli 2. og 3. umr., það er nákvæmlega enginn munur fyrir nefndarvinnuna. (Forseti hringir.) Eini munurinn er sá að það er 2. umr. þar sem er tækifæri fyrir okkur til að benda á aftur og aftur (Forseti hringir.) að verið er að brjóta mannréttindi hérna.