Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Það vekur mann til umhugsunar, þegar maður veltir fyrir sér hversu margir aðilar sem láta sig mannréttindi og mannvirðingu varða hafa gagnrýnt þetta frumvarp og andmælt því jafnvel öllu að öllu leyti, hvort þeir þingmenn meiri hlutans sem hyggjast samþykkja þetta frumvarp eða hleypa því aftur hingað inn í þingsal að lokinni nefndarvinnu á milli 2. og 3. umr., séu ósammála þessum umsögnum, telji að þetta fólk viti ekkert hvað er að tala um, hvort þeim sé alveg sama þó að hér sé verið að samþykkja lög sem líkur séu á að stangist á við stjórnarskrá eða hvort þeir telji sig einfaldlega ekki hafa neinna kosta völ. Ég er einlægt mjög forvitin um svarið vegna þess að ég skil það ekki. Ég held reyndar að í tilviki mjög margra, eins og ég hef ítrekað sagt hér í pontu, og ég meina það af öllu hjarta, geri þau sér ekki grein fyrir hvað þau eru samþykkja, sem er samt mjög skrýtið vegna þess að það eru ítarlegar umsagnir sem liggja fyrir og ef fólki finnst frumvarpið þungt yfirlestrar, sem það er, þá er hægt að grípa niður í umsagnir ýmissa aðila og finna þar kannski auðlesnari texta um það hvað er að þessu frumvarpi.

En ég held áfram að reyna að útskýra hvað er að þessu frumvarpi. Öðruvísi en að hafa gert það til hlítar mun ég ekki geta verið sátt við það að þetta mál verði samþykkt hér í þinginu. Það er æðruleysisbænin svokallaða, við gerum það sem við getum, við gerum ekki það sem við getum ekki, og ég ætla að gera það sem ég get til að gera fólki grein fyrir því hvað það er að samþykkja og með því reyna að koma í veg fyrir að það verði samþykkt, því ég trúi þessu ekki upp á ykkur, svo það sé bara orðað á mannamáli.

Ég er hérna að fjalla um 6. gr. frumvarpsins varðandi þjónustusviptingu sem er það ákvæði sem hefur hlotið einna mesta gagnrýni. Í hreinskilni sagt er eitthvað í mér sem segir að þetta muni einhvern veginn reddast og að þetta ákvæði verði fyrst og fremst það sem mun — ég ætla bara að nota smá slangur — springa í andlitið á meiri hlutanum hér á þingi vegna þess að það mun leiða af sér þyngri stjórnsýslu. Það mun leiða af sér mikið af fólki í erfiðri neyð en ég held að við munum nú, af því að það er okkar þjóðaríþrótt að láta hlutina reddast einhvern veginn, þá ímynda ég mér það, kannski er ég bara að telja mér trú um það, en ég alla vega held að þetta ákvæði verði meiri hlutanum erfiðara en þau gera sér grein fyrir og ég held að það verði auðveldara því fólki sem þessu er beint að en á horfir og vona að ég hafi rétt fyrir mér með það, kannski ekki hitt, sjáum til með það.

Það sem ég er að reyna að rekja hérna eru fullyrðingar í greinargerð með frumvarpinu um að þetta sé einhvern veginn að einhverri norrænni fyrirmynd. Því hefur verið haldið mjög hátt á lofti af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra og þingmanna meiri hlutans að þetta sé bara til þess að samræma okkar löggjöf framkvæmd og löggjöf á öðrum Norðurlöndum til að við séum ekki með eitthvert aðdráttarafl hérna með þessa frábæru þjónustu hérna, að við séum ekki að draga eitthvert fólk hingað sem er komið hingað til að njóta þessarar frábæru þjónustu. Þannig að ég er að fara yfir þær upplýsingar sem ég hef um þá þjónustu sem veitt er á Norðurlöndunum. Strax er á daginn komið að það er talsvert betri þjónusta meðan á umsóknarferli stendur í Danmörku heldur en hér að mörgu leyti. En ég er ekki komin að þeim hluta sem lýtur að þeirri þjónustu sem tekur við þegar fólki er synjað um vernd. Varðandi það sem er í boði meðan á umsóknarferli stendur þá kemur fram að þeir umsækjendur sem hafa náð 18 ára aldri geta sótt um leyfi til að stunda launaða vinnu meðan á umsóknarferli stendur. Þetta er nokkuð sem ég held að við gætum tekið til fyrirmyndar.

Nú er ég búin með tímann og held áfram með þessa æsispennandi ræðu næst. Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá. Næst mun ég fjalla um áhrif synjunar umsóknar um alþjóðlega vernd á réttindi fólks í Danmörku, „stay tuned“.