Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um 4. gr. frumvarpsins og umsögn Rauða krossins um hana. Ég hef verið að ræða um friðhelgi einkalífsins og var komin að kaflanum sem sneri að því hvernig stjórnarskráin verndar friðhelgi einkalífsins. Ástæðan fyrir því að það skiptir máli er auðvitað að það hvílir á okkur löggjafanum rík skylda til að tryggja að löggjöf sem við setjum stangist ekki á við stjórnarskrá. Við höfum verulega þungar áhyggjur af því að þetta frumvarp stangist á marga vegu á við stjórnarskrána, m.a. 71. gr. hennar, eins og ég hef komið inn á. Ég hef verið að lesa upp úr kaflanum um þann hluta í umsögninni en á bls. 4 stendur, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (hér eftir stjórnarskráin) segir að allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og í 2. mgr. 71. gr. kemur m.a. fram að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni eða rannsókn á skjölum sem skerðir einkalíf hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Ákvæði 2. mgr. 71. gr. er sérregla sem tengist einkum rannsóknar- og þvingunarráðstöfunum lögreglu í tengslum við sakamál en í 3. mgr. 71. gr. er hins vegar almenn regla um takmarkanir á friðhelgi einkalífs réttinda sem falla undir ákvæðið.“ — það er sú sem er viðeigandi í þessu tilfelli — „Samkvæmt 3. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt m.a. friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í 2. mgr. 71. gr. er ekki vísað til tiltekins markmiðs, eins og gert er í 3. mgr. sömu greinar, en markmið takmarkana sem taldar eru í 2. mgr. 71. gr. stefna einkum að því að firra glundroða eða glæpum, er í þágu almannaheilla auk þess sem þær kunna að vera í þágu þjóðaröryggis, án þess að það sé tilgreint í sjálfu stjórnarskrárákvæðinu.

Hefur ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar verið túlkað í framkvæmd með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. 8. gr. segir að „[o]pinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla opinberra aðila á mjög viðkvæmum upplýsingum, einkum upplýsingum sem varða andlega og líkamlega heilsu auðkennanlegs einstaklings, falli undir gildissvið 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu …

Þá hefur Mannréttindadómstóllinn í dómaframkvæmd sinni einnig komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga án samþykkis viðkomandi stríði gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu nema ef lög mæla fyrir um hana, hún stefnir að einu eða fleiri þeirra markmiða sem getið er í 2. mgr. 8. gr. sáttmálans og hún er nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi til að ná því markmiði sem að er stefnt. Þá skuli landslög kveða skýrt á um það umfang og þá aðferð sem stjórnvöldum er heimil við vinnslu persónuupplýsinga til að tryggja einstaklingum þá lágmarksvernd sem þeir eigi rétt á …“

Þetta þýðir, eins og kemur fram á bls. 6 í umsögninni, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði sem mæla fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. gagna er varða andlegt og líkamlegt heilbrigði, án samþykkis viðkomandi þurfa því að uppfylla framangreind skilyrði svo unnt sé að takmarka rétt manna sem tryggður er með 8. gr. mannréttindasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar.“ — og það sem kemur næst er mjög mikilvægt, virðulegur forseti — „Þær undantekningar sem koma fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans eru skýrt afmarkaðar og ber að túlka þröngt með hliðsjón af almennri lögskýringarreglu stjórnskipunarréttar enda er þar kveðið á um takmarkanir á grundvallarmannréttindum sem borgurum eru tryggð.“

Þetta teljum við einmitt ekki vera tryggt í þessu frumvarpi, virðulegi forseti. En ég sé að ég hef ekki nægilegan tíma til að koma ástæðunum hér skýrt á framfæri og því óska ég eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.