Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:46]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var í fyrri ræðu minni að fara yfir skyldubundið mat stjórnvalda og mitt mat á því að þessi meginregla hafi greinilega ekki verið tekin til greina við gerð þessa frumvarps. Til að fara nánar út í þetta og skýra aðeins betur langar mig að taka fyrir álit umboðsmanns Alþingis í máli sem varðaði skrifstofustjóra. Þar var talið að reglur kjaranefndar, um ákvörðun greiðslna vegna aukastarfa, væru full afdráttarlaust orðaðar og drægju því úr því markmiði löggjafans að kjaranefnd taki launaákvörðun sem réttust og eðlilegust þyki í hverju tilviki fyrir sig með skírskotun til atvika og aðstæðna. Mér finnst þetta skýra þessar reglur frekar vel og það hjálpar oft að setja þetta í samhengi við fyrri mál.

En þrátt fyrir regluna um skyldubundið mat er talið að stjórnvaldi sé heimilt að setja verklagsreglur til stuðnings beitingar matskenndra valdheimilda. Síðan er spurning um hversu langt það megi ganga og þá eru þrjú sjónarmið lögð til grundvallar. Fyrsta sjónarmiðið er fjöldi mála; því fleiri mál, því meiri þörf á verklagsreglum til að stuðla að skilvirkni, samræmi og fyrirsjáanleika. Þetta frumvarp uppfyllir það ekki og ég mun fara yfir það á eftir. Annað sjónarmiðið snertir ólík sjónarmið eftir sviðum og eðli ákvarðana. Það er hægt að taka skattarétt sem dæmi. Það er mjög mikilvægt að samræmi sé á milli mála vegna þess að jafnræðisreglan er meginregla en stundum einstaklingsbundin eins og t.d. við tekjuskatt. Í félagarétti vegur skyldubundna matið líka þungt þar sem ekki er hægt að taka réttindi af borgurum með setningu stjórnvaldsfyrirmæla. Það kom til álita í áliti umboðsmanns Alþingis varðandi lækkun eignarskattsstofns en þar taldi hann að mat þyrfti að fara fram á því hverju sinni hvort um verulega skert gjaldþol væri að ræða og þyrfti því að gæta að því, við setningu stjórnvaldsfyrirmæla, að slíkt mat yrði ekki afnumið.

Það sem ég er að reyna að koma á framfæri hér og setja í samhengi er að þessar meginreglur — er varða stjórnvöld og stjórnvaldsákvarðanir og ákvarðanir sem varða rétt og skyldur manna, sem þetta frumvarp varðar líka og snertir á — hafa verið mótaðar í þó nokkur ár og eru bara frekar skýrar. Það frumvarp sem við höfum verið að ræða í þaula í dag og síðustu daga líka, jafnvel þó að ég sé bara komin í umræðuna núna, fer bara skýrt gegn þessum reglum sem eru fastmótaðar og settar og er eiginlega ekkert hægt að taka til baka. Síðan er þriðja sjónarmiðið sem er lagt til grundvallar og það er tegund og eðli verklagsreglna, hvers konar verklagsreglur verða settar, hvernig þær munu samræmast því máli sem verið er að ræða hverju sinni.

Svo er líka umfjöllun um misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. Ég held það sé mjög mikilvægt að fara yfir þetta af því að við erum að tala um málaflokka þar sem auðvelt er að misbeita valdi þegar kemur að því að velja leiðir til að leysa úr máli. Sum ákvæði í þessu frumvarpi eru bara algjör þvæla, ef ég á að vera hreinskilin, eins t.d. 8. gr., 7. gr. — guð minn góður 2. gr. Ég ætla að fara út í þessa reglu. Hún hefur aðallega þýðingu við ákvörðun stjórnvalda um efni matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Þetta frumvarp felur í sér heimild til þess að beita svona matskenndum ákvörðunum. Ef Útlendingastofnun telur að einhver umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi mögulega einhver tengsl við eitthvert land er viðkomandi frekar sendur þangað en til heimaríkis síns. Ef Útlendingastofnun telur að ef umsækjandi fái að leggja fram fleiri gögn muni það allt í einu breyta úrlausn máls og muni verulega auka líkur á því að beiðni um vernd hér á landi verði samþykkt — það er bara mjög opin heimild fyrir því að beita einhvers konar matskenndum ákvörðunum þegar kemur að rétti eða skyldu manna sem ber að forðast. En ég ætla að fara nánar út í það í næstu ræðu minni, virðulegi forseti.