152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Besta ræðan sem flutt hefur verið hérna undir þessum lið er frá hv. þingmanni Hildi Jönu Gísladóttir og ég skil svo ósköp vel það sem hún sagði þar, að hún skilji ekkert í þessu. Það er enginn þarna úti sem skilur neitt í þessu, það er bara þannig. Ef við ætlum að tala um virðingu þingsins þá hlýtur það náttúrlega að vera þannig að fólk þurfi að skilja aðeins hvað við erum að gera. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þessa salar sem málstofu, alveg gríðarlega mikilvægrar og meira að segja það mikilvægrar að ég áttaði mig ekki alveg á því fyrst þegar ég steig inn á þing. En ég átta mig svo sannarlega á því í dag. En málstofan snýst um það að við séum að ræða einhver mál og skiptast á skoðunum um mál sem eru á dagskrá. Svona „rant“ sem á sér stað hér í einhverja klukkutíma undir liðnum fundarstjórn forseta er auðvitað ekki skoðanaskipti. Það er ekki málstofa þar sem við erum að átta okkur á því hvar línurnar liggja í pólitíkinni, hver afstaða fólks er.