Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:01]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að fara í gegnum málsmeðferðarreglur stjórnvalda. Hluti af þessum málsmeðferðarreglum eru m.a. réttmætar væntingar aðila máls. Ég ætla bara setja þetta í samhengi hér: Þegar einstaklingur sendir inn umsókn til að hljóta alþjóðlega vernd hér á landi verður hann aðili máls. Þegar borgari hefur samskipti við stjórnvöld geta yfirlýsingar, ráðstafanir eða aðgerðir stjórnvalda leitt til þess að væntingar skapast hjá borgaranum. Þegar spurt er hvort stjórnvöldum sé skylt að taka tillit til þessara væntinga ræðst svarið af óskráðri meginreglu sem nefnd er meginreglan um réttmætar væntingar málsaðila. Þetta er bara óskrifuð regla. Það er einn þáttur í þessu sem eru huglægar væntingar málsaðila en þær verða að hafa orðið til fyrir tilverknað stjórnvalda, þá annaðhvort vegna munnlegs eða skriflegs tilverknaðar eða vegna athafnaleysis eða athafna stjórnvalda. Síðan verður líka að vera orsakasamband á milli háttsemi stjórnvalda og væntinga málsaðila. Ég get alveg sett það í samhengi við þetta frumvarp sem við ræðum hér í dag, sjöunda daginn í röð held ég, en ég ætla bara að taka dæmi um hæstaréttardóm af því að mér finnst það oftast auðveldasta leiðin til þess að skýra einhvers konar lagalegt dæmi. Þessi hæstaréttardómur fjallaði um ráðningu afleysingalæknis í síma en aðili hélt því fram að í símtali milli hans og læknis á heilsugæslu hefði komist á skuldbindandi samningur um ráðningu hans í starf afleysingalæknis við stofnunina og að íslenska ríkið hefði bakað sér bótaábyrgð með því að fallið hefði verið frá þeim samningi. Það var talið að það væri ósannað að í umræddu símtalið hefði falist meira en jákvæð afstaða til umsóknar um starfið á heilsugæslunni og því væri ekki unnt að líta svo á að í símtalinu hefði verið tekin ákvörðun um ráðningu hans. Þá er heldur ekki talið að aðilinn hafi að öðru leyti átt lögvarða kröfu á því að vera ráðinn í starfið á grundvelli réttmætra væntinga sinna.

Virðulegi forseti. Þetta er bara skýrt dæmi um það hvernig réttmætar væntingar virka ekki. Segjum sem svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hringi í Útlendingastofnun og spyrji: Hey, eruð þið að fara yfir umsóknina mína? Og Útlendingastofnun segir: Já, þetta er í vinnslu — þá skapast væntanlega ekki réttmætar væntingar. En þegar umsækjandi t.d. um alþjóðlega vernd hringir í Útlendingastofnun og Útlendingastofnun biður hann um að koma með fleiri og ítarlegri gögn varðandi málið og að það muni auka líkur á því að þessi umsókn verði samþykkt — það eru réttmætar væntingar. En til þess að stjórnvaldsákvörðun öðlist bindandi réttaráhrif verður að birta hana aðila málsins. Það er ekki hægt að binda réttmætar væntingar við stjórnvaldsákvörðun þrátt fyrir að stjórnvald hafi gefið til kynna hver niðurstaðan verði. Stjórnvald getur breytt ákvörðun sinni þangað til hún er birt málsaðila, samanber 23. gr. stjórnsýslulaga.

Segjum sem svo að ég taki próf í Háskóla Íslands, af því að það er stjórnvald, og kennarinn fer yfir prófið og ég er með 9,5. Það sem ég er búin að vera að miða mjög mikið við í laganáminu er að það er ekki hægt að taka einkunnina þína til baka. Þetta er stjórnvaldsákvörðun. Segjum að ég fái 9,5 en það er ekki enn þá búið að birta einkunnina mína og það er ekki enn búið að tilkynna mér einkunnina mína og þá fer kennarann aftur yfir prófið og sér að ég fékk bara 5. Það má og þá geta ekki skapast réttmætar væntingar. En segjum sem svo að hann sé búinn að fara yfir prófið, búinn að gefa mér 9,5 og búinn að birta niðurstöðuna og einkunnina og búinn að tilkynna mér það og ég sé einkunnina, síðan fer hann aftur yfir prófið og áttar sig á: Heyrðu, þetta er bara fimma — þarna skapast réttmætar væntingar og það má ekki.

Það er mjög gott að taka svona smá kennslu í stjórnsýslurétti 101, eða Stjórnsýslurétti II eins og við köllum þetta í laganáminu, til þess að hæstv. dómsmálaráðherra átti sig á því að hann hefur ekki litið til þessara laga við gerð þessa frumvarps.

En ég sé að tíminn er á þrotum og óska þess að verða sett aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti.