Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Ég kláraði hér áðan að fara yfir 8. gr. en hún tengdist m.a. því að geta haldið ríkisfangi. En það er líka athyglisvert að skoða 10. gr. og þá sérstaklega 1. mgr., en í henni segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við skuldbindingar sínar skv. 1. tölulið 9. gr. … “ — Ég þarf kannski að hoppa aðeins til baka, en í 9. gr. stendur:

„Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla.“

Þetta var sem sagt 9. gr. Ég hefði greinilega átt að lesa hana fyrst en ég vona að frú forseti afsaki það, og fer þá aftur í 10. gr. og 1. mgr. og byrja aftur:

„Í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. tölul. 9. gr. skulu aðildarríki með jákvæðu hugarfari, mannúðlega og með skjótum hætti afgreiða beiðni barns eða foreldris þess um að koma til eða fara frá aðildarríki vegna endurfunda fjölskyldu. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að það eitt að slík beiðni sé borin fram hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir beiðendur eða aðra í fjölskyldu þeirra.“

Frú forseti. Eins og hefur komið fram hér fyrr í umræðum um þetta mál þá kemur hingað til lands fjöldi barna, þó nokkur fjöldi barna, fylgdarlaus. Samkvæmt þessari grein eiga þau rétt á því að fá það sem í þessum fræðum er kallað fjölskyldusameining. En það er mikilvægt að horfa líka til þess að ein af greinum þessa frumvarps takmarkaðar t.d. fjölskyldusameiningu, jafnvel hjá fólki sem kom hingað til Íslands í boði stjórnvalda. Það er erfitt að sjá hvernig það að takmarka fjölskyldusameiningu er ekki brot á þessari málsgrein 10. gr. Fólk hefur sagt: Ja, þetta er ekkert að gerast. Af hverju ætti þetta að gerast? Jú, það eru mýmörg dæmi til um það í heiminum, og sér í lagi í löndum þar sem hafa verið átök, að fólk hverfur, jafnvel í mörg ár. Það er látið dúsa í einhverjum fangelsum einhvers staðar. Fjölskyldan flýr. Fjölskyldan er kannski búin að vera í flóttamannabúðum í mörg ár, er boðið að komast sem kvótaflóttafólk til landsins. Svo breytist eitthvað í ríkinu þar sem það bjó og viðkomandi losnar úr þessari prísund, sem oft hefur kannski verið af pólitískum ástæðum miklu frekar en nokkru öðru, og fólk nær aftur sambandi við ástvini sína. En mannvonskan hjá dómsmálaráðherra er slík að þetta vill hann ekki tryggja, að börnin geti hitt aftur fjölskyldu sína.

Frú forseti. 1. mgr. 11. gr. byrjar svo:

„Aðildarríki skulu gera ráðstafanir gegn því að börn séu ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis.“

Ég kemst kannski ekki lengra með þetta en ég ætla að biðja frú forseta um að bæta mér aftur á mælendaskrá þar sem við erum að koma að mjög skemmtilegum hluta barnasáttmálans.