Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Næsta umsögn sem mig langar að fara yfir er umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur. Hún er dálítið viðamikil og byrjar á því að viðvarandi ákvarðanir um synjun sæti sjálfkrafa kæru, þ.e. 2. gr. frumvarpsins.

„Þessi breyting mun stytta þann tíma sem umsækjendur hafa til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar, afla nýrra gagna og undirbúa greinargerð vegna kæru. Það getur oft tekið tíma að afla gagna erlendis frá …“, eins og hefur verið bent á af öðrum umsagnaraðilum, frá einmitt bara íslenskri stjórnsýslu, sem er með lengri tíma eða jafn langan tíma til þess að svara fyrirspurnum. Það er ekki hægt að fara í þær í rauninni fyrr en eftir að það er komin ákvörðun þannig að tíminn er ekki nægur. Það getur tekið tíma að afla gagna erlendis frá og fá leiðbeiningar lögfræðings til að undirbúa kæru. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur leggst einfaldlega gegn þessari breytingu.

Varðandi þjónustuskerðingu eftir 30 daga er mannréttindaskrifstofan mótfallin því að öll þjónusta falli niður. Einnig fellur öll þjónusta niður um leið ef umsækjandi er frá EES-ríki eða frá öruggu upprunaríki að mati Útlendingastofnunar. Það er svo sem að vissu leyti eðlilegt að það geri það vegna umsækjenda frá EES-ríki þar sem viðkomandi hefur alveg rétt á að koma hingað til að sækja um vinnu og bara sinna því en gæti samt mögulega fallið undir þessi skilyrði um alþjóðlega vernd. En þegar svo er ekki getur fólk einfaldlega unnið hérna og gert allt sem það gerir, samkvæmt EES-samningnum. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur leggur áherslu á að það þurfi að skoða aðstæður hvers fyrir sig með tilliti til aðstæðna í upprunaríki, því sé ekki hægt að alhæfa með þessum hætti að umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus.

Þetta er rauði þráðurinn í gegnum allt málsmeðferðarferli umsækjenda um alþjóðlega vernd, að það verður að meta hvert og eitt tilvik út frá einstaklingnum af því að þetta geta verið almennar ástæður eins og varðandi stríðið í Úkraínu. Ef þú uppfyllir það, t.d. frá Mariupol eða eitthvað svoleiðis, þá bara já, gjörðu svo vel, það þarf ekkert að skoða það mikið meira og sérstaklega af því að nýtt er önnur heimild en venjulega vegna alþjóðlegrar verndar þannig að það er farið pínulítið fram hjá kerfinu í því tilfelli. Það þarf að skoða einstaklingsaðstæður því að tveir einstaklingar frá sama landi geta fengið mismunandi niðurstöðu. Annar getur fengið alþjóðlega vernd og hinn ekki vegna þeirra persónulegu aðstæðna, vegna t.d. kynferðis eða pólitískra skoðana eða ýmislegs svoleiðis. Það má ekki setja svona almennar frávísunarreglur. Það er ekki hægt.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur bendir líka á að skv. 11. gr. stjórnsýslulaga er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn máls á grundvelli þjóðernis en samkvæmt frumvarpinu á að undanskilja útlendingamál frá rétti stjórnsýslulaga í 18. gr., um rétt til að fá aukinn frest. Það getur reynst brot á rannsóknarskyldu ef umsækjendur fá ekki nægilegan tíma til að afla gagna.

Það skiptir miklu máli að geta flutt mál sitt með öllum þeim gögnum sem til eru og það hefur verið nefnt hérna dæmi í umræðunni um gögn sem bárust seint af því að það reyndist erfitt að fá þau úr dánarbúi erlendis, eitthvað þess háttar. Þetta er rosalega flókinn málaflokkur og erfitt að glíma við hann af því að einstök dæmi geta fallið svo langt fyrir utan almenna rammann sem lögin setja til þess bara að geta hafnað fólki sem uppfyllir ekki ákveðin skilyrði þrátt fyrir að það séu mjög málefnalegar ástæður fyrir því að þau falli út fyrir t.d. þessi tímaskilyrði.

En ég held áfram með umfjöllun mína um umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í næstu ræðu og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.