Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn leita ég fanga í stórgóðri skýrslu Rauða krossins um fólk í umborinni dvöl. Ég er ekki einu sinni með skýrsluna sjálfa í höndunum heldur bara útdrátt úr henni. Mig langar, vegna þess að ég er búinn að grípa niður í nokkra ólíka þætti skýrslunnar, að fara yfir niðurstöðukafla og þær tillögur til úrbóta sem Rauði krossinn kemur með í lok skýrslunnar. Þetta er allt saman eitthvað sem allsherjar- og menntamálanefnd hefði átt að getað kynnt sér þar sem skýrslan barst nefndinni 30. nóvember en frumvarpið var afgreitt úr nefnd tveimur vikum síðar. Skýrslan fjallar um einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en er ekki hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum. Rauði krossinn bendir á að þetta fólk búi við ómannúðlegar aðstæður sem nauðsynlegt sé að vekja athygli á. Þau hafi bara eðlilega löngun til að lifa mannsæmandi lífi en til að þau geti það þá þurfi bæði að vita af tilvist þeirra og grípa til ákveðinna lagalegra úrræða til að bæta úr stöðu þeirra í samfélaginu. Tillögurnar eru fjórar sem lagðar eru fram til úrbóta og ég ætla að fara nálægt því að lesa þær beint upp, með leyfi forseta:

„Búa þarf til lagaramma sem tekur á aðstæðum umsækjenda, sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni en ekki er hægt að flytja úr landi, sem veitir þeim einhvers konar leið að löglegu dvalarleyfi hér á landi, umfram umborna dvöl.“

Þetta er fyrsta tillagan sem snýst í rauninni bara um að tilvist þeirra sé viðurkennd og það sé minnst á þau í lögunum.

Önnur tillagan er að einfalda aðgengi að bráðabirgðadvalarleyfi, með leyfi forseta:

„Flestir þeirra sem RKÍ ræddi við hafa dvalið á Íslandi í fjögur ár eða lengur. Samkvæmt 58. gr. útl. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.“

Eða, svo við snúum þessu yfir á einfaldara mál: Ef þetta fólk væri ekki á einhverju limbóleyfi til að vera hér á landi væri það búið að vinna sér inn fyrir því að fá dvalarleyfi. Það er búið að vera hérna það lengi.

Áfram heldur þessi önnur tillaga, með leyfi forseta:

„RKÍ hvetur yfirvöld til að veita fólki í framangreindri stöðu einfaldari aðgang að bráðabirgðadvalarleyfi sem veitir þeim tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi hér á landi.“

Þetta eru ekki háar kröfur: Mannsæmandi líf er nú eitthvað sem ég held að sé nánast hægt að finna einhverja þverpólitíska sátt um.

Svo er þriðja tillaga Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Einfalda aðgengi að bráðabirgðaatvinnuleyfi. Samkvæmt 23. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna skulu allir hafa rétt til atvinnu. RKÍ hvetur því til þess að framangreindur hópur fái greiðari aðgang að bráðabirgðaatvinnuleyfum sem myndi gera þeim kleift að verða fjárhagslega sjálfstæð og stuðla að bættum lífsgæðum.“

Þetta er svo áhugavert í ljósi þess hvað er verið að gera í frumvarpinu nú þegar. Þegar það kom frá ráðherranum þá voru þar ákvæði varðandi atvinnuleyfi fólks sem hefði fengið hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða vegna sérstakra tengsla, ef ég man rétt. Fólkið er ekkert í ósvipaðri stöðu og örugglega mörg þeirra sem fjallað er um í skýrslu Rauða krossins um umborna dvöl, þannig að ráðherra er tilbúinn til að stíga þetta skref í þágu ákveðinna hópa. Rauði krossinn bendir á að eðlilegt sé að taka utan um þennan litla þröngt afmarkaða hóp með sama hætti en meiri hlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd tekur það ekki upp á sína arma.

Ég á stundum svolítið erfitt að skilja þetta ósamræmi í því sem stjórnarliðar eru að gera í þessu máli. Ég fæ þetta ekki alveg til að passa saman.