Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er oft talið núgildandi lögum um útlendinga til tekna að þau hafi verið samþykkt í mikilli þverpólitískri sátt á sínum tíma og að vissu leyti er ekki annað hægt en að taka undir það, sérstaklega í ljósi þess að lögin voru samþykkt á tíma þegar Evrópa var frekar að herðast í öllum útlendingamálum. Það greip um sig hálfgert óðagot í álfunni þegar afleiðingar Sýrlandsstríðsins fólu m.a. í sér að milljónir fólks neyddust til að leggja á flótta og stór hópur þeirra endaði í Evrópu, sérstaklega í suðurhluta álfunnar. Þá voru fyrstu viðbrögð hjá sumum löndum að skella dálítið í lás og herða reglur og jafnvel að sum stjórnmálaöfl gætu hagnýtt sér þetta en þeir sem við kannski köllum á tyllidögum öfga hægri flokka fóru að setja sitt mark á þjóðþing víða um Evrópu í auknum mæli á þessum tíma. En hér á Íslandi náðist að fá alla flokka á Alþingi til að setjast saman og hnoða saman löggjöf sem var alveg ágæt. Hún tók kannski engin stór stökk fram á við en hún þokaðist eitthvað fram á við frá því sem hafði verið í gildandi lögum.

Vandinn er að frá þeim tímapunkti hefur eiginlega ekkert gerst og lögin tóku gildi í ársbyrjun 2017. Síðan eru liðin sex ár þannig að þessi lög hafa verið í, mig langar að segja hálfgerðri spennitreyju. Vissulega hafa mörg lög verið samþykkt sem gerðu einhverjar breytingar á útlendingalögum. Mér telst til að þeim hafi verið breytt 18 sinnum frá gildistöku en flestar þær breytingar eru það sem mætti kalla svona núll breytingar, eitthvert orðalag sem breytist vegna þess að það er verið að gera eitthvað í öðrum lögum. Dæmi um það er t.d. lög nr. 32/2020 sem voru samþykkt hérna í miðju Covid og snerust um að færa ýmsa hluta stjórnsýslunnar á rafrænt form. En ef við skoðum beinar breytingar á lögunum sem höfðu einhverjar miklar efnislegar afleiðingar þá sýnist mér við kannski geta talið þar til sex frumvörp sem urðu að lögum og ef við ættum bara að flokka í það sem þeim sem hér stendur finnst neikvætt og jákvætt þá myndi ég segja að neikvæðu breytingarnar séu fleiri en þær jákvæðu. Þannig að frá því að lögin voru samþykkt í þessari miklu þverpólitísku sátt hefur verið þverpólitísk störukeppni um þau. Það hefur ekki náðst samstaða um einhverjar stórar efnisbreytingar á þessum sex árum sem eru liðin heldur hafa allar breytingar verið viðbragð við einhverju sem þyrfti að laga. Og þær neikvæðu bornar fram af ráðherra málaflokksins, og reyndar sýnist mér þær allar hafa verið bornar fram af Sigríði Á. Andersen þann tíma sem hún sat í ráðuneytinu, og allar snúast þær um að snikka af lögunum það svigrúm sem í þau var byggt.

En þetta var bara stuttur inngangur að því að mig langar að fara aðeins yfir sumar af þessum breytingum í aðeins meiri smáatriðum en fæ kannski að gera það hér síðar á dagskránni því að tíminn er á þrotum.