Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var kominn í gegnum einn þriðja eða svo af umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, sem hnýtir einnig í það að í frumvarpinu segi að það sé í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndunum — ég held að þetta sé ein af uppáhaldsröksemdafærslunum mínum í þessu frumvarpi — þ.e. umgjörð annarra Evrópuríkja og annarra Norðurlanda, að frumvarpið sé sem sagt einhvern veginn að fyrirmynd viðkomandi ríkja og þar með sé þetta bara allt í lagi. En Mannréttindastofnun Háskóla Íslands bendir á að þetta sé með öllu óljóst. Það er heldur ekki tekin nein afstaða til þess hvers vegna frumvarpshöfundar telja aðra leiðina ákjósanlegri en hina. Án slíkra útskýringa eru óljósar tilvísanir til einhverra útlanda bara ekkert gagnlegar við að meta efni frumvarpsins. Þetta er svona: Já, við ætlum að gera eins og Norðurlöndin, þau eru svo fín og góð. En samt ekkert rosalega mikið í þessum málaflokki, þau gera þetta á mjög mismunandi hátt þannig að það er ekki alveg hægt að horfa til þeirra, en þau ætla samt að gera það. Hvaða Norðurlanda ætlið þið að horfa til? Við ætlum bara að horfa til Norðurlanda, þau eru svo fín, við miðum okkur alltaf við þau, þá hlýtur þetta að vera gott, er það ekki? Hvernig? Hvaða lög nákvæmlega eruð þið að tala um? Engin svör.

Þetta eru dæmi um innantóm rök. Það hljómar rosalega gáfulega að vera eins og á Norðurlöndunum, þeim gengur svo vel á fullt af mismunandi sviðum og Noregur er svo ríkur o.s.frv. að það hlýtur að vera sniðugt að miða við Noreg og svona. Það er bara frábært, er það ekki? Já, en ef þú ert bara að segja það en þú ert ekki í alvörunni að gera það, hvað þýðir það þá? Tillögurnar sem eru hérna, hvaða löggjöf eru þau að bera sig saman við á hinum Norðurlöndunum? Því að við erum búin að fara í gegnum þó nokkrar greinar og segja að þær gangi lengra t.d. í þjónustuskerðingu en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Hvernig gengur þetta þá upp? Mannréttindastofnun Háskóla Íslands finnur þennan galla í röksemdafærslunni frekar auðveldlega. Ég hnýtti í einn stjórnarþingmanninn sem fjallaði um þetta á samfélagsmiðlum, hvað við værum rosalega fín að gera þetta eins og hin Norðurlöndin. Ég spurði: Hvernig eru það rök í málinu? Hvernig virkar það? En nei, þau kunna þetta ekki alveg.

En alla vega, sjálfvirka kæran, 2. gr. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands vekur athygli á að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála sé að viðkomandi hafi öll gögn málsins. En Útlendingastofnun áskilur sér a.m.k. tíu daga frest til að afhenda öll gögn. Þá var talað um það í umsögn Amnesty International að þetta væru tíu virkir dagar, sem þýðir að það geta verið þrjár helgar sitthvorum megin þarna við, a.m.k. tvær sem eru 14 dagar og það er 14 daga frestur til að skila greinargerð. Það er ekki fyrr en eftir að þú ert búinn að fá öll gögnin sem þú getur í rauninni í fyrsta lagi klárað greinargerðina. Þú klárar hana ekki sama dag og þú fær öll gögnin, það er, held ég, mjög ólíklegt. Tímafrekt getur einnig reynst að afla gagnanna annars staðar frá, hjá þeim sem eru kannski með enn lengri frest eftir að óskað er eftir gögnunum til að skila þessum gögnum. Það gefur umsækjenda svo skamman frest að illmögulegt getur verið fyrir umsækjenda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, sem er m.a. tryggður í 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er umtalsverð réttindaskerðing. Kærunefnd útlendingamála sagði: Já, en við tökum síðan við uppfærðri greinargerð bara hvenær sem er og nýjum gögnum bara hvenær sem er síðar. En ef það er rétt, hvernig er þetta stytting á nokkru hvort eð er? Þetta á að vera stytting en ef þau taka síðan hvort eð er við gögnum, bara upp á von og óvon í rauninni, ég veit ekki af hverju maður ætti að treysta því endilega miðað við söguna hvað það varðar, hvernig er þetta þá einhver stytting í tíma? Að sjálfsögðu engin, því að gögnin koma bara þegar þau koma og þá tekur tíma að vinna úr þeim og gera greinargerð sem þarf svo að skila. Vonandi hlusta stjórnvöld á það og taka við því en það er ekki endilega víst. Þannig eins og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands segir: Umtalsverð réttindaskerðing. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.