Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er komin í aðalfjörið í þessu frumvarpi, í 7. gr. sem mér þykir svo skemmtilegt að tala um vegna þess að það skilur hana enginn. Þótt ég sé ekki þekkt fyrir að eiga auðvelt með að færa lögfræðimál yfir á mannamál ætla ég samt að gera enn eina heiðarlega tilraun til þess. Ég ætla að byrja á að lesa upp skýringarnar við þessa grein í greinargerðinni með frumvarpinu, sem sagt skýringar frumvarpshöfunda á þessu ákvæði, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna sem gerir útlendingum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga …“

Ég ætla að staldra við þarna. Útlendingum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd er í dag kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga, líkt og öllum borgurum í allri stjórnsýslunni almennt, á grundvelli stjórnsýslulaga.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga sem gilda um allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og skyldur borgaranna segir, með leyfi forseta:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Þetta er almenn regla stjórnsýsluréttar um rétt fólks til að fá mál sitt endurupptekið. Þetta er ekki endurtekin umsókn. Þetta er endurupptaka, beiðni um endurupptöku. Það sem frumvarpshöfundar eru að gera með 7. gr. frumvarpsins er að rugla þessu tvennu saman og grauta þessu í sama pott í þeim tilgangi að losna við beiðnir um endurupptöku vegna þess, og það kemur beinlínis fram í greinargerðinni, að það eru svo margar beiðnir um endurupptöku, vegna þess að þær hafa aukist svo rosalega mikið og eru orðnar helmingur þeirra mála sem kærunefnd útlendingamála var með á borði sínu árið 2021.

Það sem gleymist að nefna er ástæðan fyrir því að beiðnum um endurupptöku hefur fjölgað gríðarlega mikið. Vegna heimsfaraldurs Covid-19, sem í stjórnsýslulegu tilliti er kannski yfirstaðinn að mestu, þá annars vegar lengdist meðferð mála og ekki var hægt að flytja einstaklinga úr landi vegna takmarkana á ferðafrelsi fólks. Það er því ekki að undra að beiðnir um endurupptöku hafi verið orðnar svona margar, að þeim hafi fjölgað á þessu tímabili. Það er heldur ekki að undra að fallist hefur verið á þorra þeirra beiðna. Ég á reyndar eftir að biðja um tölfræði yfir það, eða finna hana, ég hef ekki fundið hana enn þá, hversu margar beiðnir um endurupptöku eru samþykktar vegna þess að skilyrði fyrir endurupptöku, sem ég nefndi hér, þ.e. að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann, sem þessar ákvarðanir eru, hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin — það er eingöngu í þeim tilvikum sem mál fæst endurupptekið. Mig grunar að fallist sé á þetta í mörgum þessara mála og það er sannarlega fallist á það í þeim málum þar sem stjórnvöld eru fallin á tíma við að vinna málið nema umsækjandi sé talinn bera ábyrgð á töfum málsins sjálfur. Þannig eru núgildandi lög. Það er ekkert verið að bæta neinu slíku í lögin, svo að það komi fram.

Ég ætla bara að lesa eina setningu, ég á lítinn tíma eftir en ég mun halda áfram með umfjöllun um þetta ákvæði í næstu ræðu minni, með leyfi forseta:

„Við útfærslu hugtaksins endurtekin umsókn og málsmeðferð slíkra umsókna var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/32/ESB um lágmarkskröfur til málsmeðferðar í aðildarríkjum við veitingu og afturköllun á stöðu flóttamanns höfð til hliðsjónar. Miða reglurnar fyrst og fremst að því að samræma málsmeðferð vegna slíkra umsókna og koma í veg fyrir misnotkun en tryggja jafnframt réttaröryggi umsækjenda.“

Ég óska eftir því, forseti, að fá að fara aftur á mælendaskrá svo að ég geti rakið þetta bull.