Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:28]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem ég lét staðar numið síðast þegar ég tók þátt í þessari umræðu fyrr í dag. Þar var ég að tala um réttmætar væntingar aðila máls í samhengi við frumvarpið sem við ræðum hér. Ég var að tala um réttaráhrif réttmætra væntinga málsaðila, en það felur í sér að aðili máls hefur jafnan sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði séu uppfyllt fyrir því að réttmætar væntingar hafi skapast. Þegar því hefur verið slegið föstu að réttmætar væntingar málsaðila hafi skapast þarf að taka afstöðu til þess hvaða vægi eigi að ljá þeim væntingum og getur þá skipt máli hvort málsaðili hafi gert ráðstafanir í samræmi við væntingar sínar. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort búið sé að taka þetta atriði til greina, réttmætar væntingar aðila máls, við gerð þessa frumvarps. Þetta lýtur auðvitað að stjórnvaldsákvörðunum. Ákvörðun um að veita umsækjanda eða synja um alþjóðlega vernd hér á landi telst vera stjórnvaldsákvörðun, en ég þarf svo sem ekki að fara út í þá sálma. Stjórnvald verður líka að leggja væntingar málsaðila til grundvallar við túlkun á lagaákvæði og það getur auðvitað skapað skaðabótaskyldu ef þær væntingar eru ekki uppfylltar.

Ég er búin að setja þetta allt í samhengi við þetta frumvarp, hvað varðar réttmætar væntingar aðila máls. Mig langar því að fara út í meðalhófsregluna. Í lagaákvæðinu sem kveðið er á um í þessu frumvarpi eru heimildir til að skerða réttindi fólks, grunnréttindi, grunnþjónustu, heimildir til að fá aðgang að sjúkraskrá einhvers án þess að viðkomandi viti af því, án þess að hann hafi nokkra vitneskju um það. Það eru náttúrlega íþyngjandi heimildir sem myndi þá vera beitt gagnvart borgara og því langar mig bara að vita hvort meðalhófs hafi verið gætt eða hvort búið sé að leggja mat á það að þessar heimildir uppfylli meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem gildir um stjórnvaldsákvarðanir. Stjórnvald má bara taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess vegna þarf þá að gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Ég veit ekki hvort hér sé verið að fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til enda er bara farið beint í þessar íþyngjandi heimildir sem skerða réttindi fólks. Ég tel, sem utanaðkomandi aðili sem samdi ekki frumvarpið og hefur ekki lagt það fram fimm sinnum, að til séu minna íþyngjandi leiðir til að ná þessum markmiðum fram en að vera að skerða grunnþjónustu sem þessir umsækjendur eiga nú þegar rétt á samkvæmt núgildandi lögum. Ég bind því vonir við að hv. allsherjar- og menntamálanefnd sé að fara að taka meðalhófsregluna til skoðunar og athuga hvort ákvæði útlendingafrumvarps hæstv. dómsmálaráðherra sé í samræmi við meðalhófsregluna, hvort meðalhófs sé gætt við beitingu þessara heimilda.

Þessi meðalhófsregla er þríþætt. Í fyrsta lagi þarf íþyngjandi ákvörðun að vera til þess fallin að þjóna lögmætu markmiði sem að er stefnt. Í öðru lagi er stjórnvaldi skylt að velja það úrræði sem vægast er þegar nokkurra úrræða er völ. Í þriðja lagi verður að vera hóf í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og stjórnvald má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er. Til að setja þetta í samhengi langar mig að reifa einn hæstaréttardóm, sem ég kalla: Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. En ég sé að ég er að renna út á tíma, virðulegi forseti, og því mun ég reifa þennan dóm í næstu ræðu minni. Ég óska þess vegna eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.